Ungir Norðmenn með bíladellu fagna því nú af hjartans lyst að þurfa ekki lengur að þreyja þorrann til 18 ára aldurs til að öðlast hið langþráða frelsi sem réttindum til bifreiðaaksturs fylgir. Aðeins sextán ára gamlir mega þeir nú, samkvæmt nýjum reglum, aka „nöðrubílnum“, eða mopedbilen, sem nú er tekið að flytja inn til Noregs í stórum stíl.
Reyndar kostar ökutæki þetta nýtt um 200.000 krónur, hátt í þrjár milljónir íslenskra króna, en verðið stöðvar ekki alla og nöðrubíllinn telst núna samkvæmt lagabókstafnum það sem samkvæmt íslenskri flokkun væri létt bifhjól í flokki tvö, skellinaðra í daglegu tali, átta hestöfl og má samkvæmt norsku reglunum ekki vega meira en 450 kílógrömm.
Ágúst Ásgeirsson blaðamaður fjallaði um ökutæki þessi í Morgunblaðinu og kallaði dvergbíla þegar þau tóku að verða áberandi á frönskum vegum fyrr á öldinni:
Próflausum Frökkum frjálst að aka um
Mopedbil af gerðinni Ligier JS50, sem fyrirtækið Mopedbil Norge flytur inn frá Frakklandi og markaðssetur, nær 45 kílómetra hámarkshraða og gefur auga leið að slíkt ökutæki vekur líklega fyrst og fremst gremju ökumanna „venjulegra“ bifreiða á akvegum með hærri hámarkshraða.
Þetta kannast þeir félagar Simon-Emiil Waage og Andreas Jensen Risnes, 16 og 17 ára, ekki við að hafi verið sérstakt vandamál þegar þeir gerðu tilraun með nöðrubílinn með það fyrir augum að athuga hvort á honum mætti skella sér í venjulegt frí á norskum vegum, það er að segja nokkur hundruð kílómetra ferðalag.
Óku þeir sem leið lá frá heimabyggð sinni Austrheim, skammt frá Bergen, og norður til Ålesund, tæplega 400 kílómetra vegalengd, og sögðu norska ríkisútvarpinu NRK frá upplifun sinni, en ferðalaginu lýstu þeir aukinheldur í smáatriðum með Facebook-pistlum og myndskeiðum á samfélagsmiðlinum TikTok.
Ferðalagið tók reyndar þrjá daga á 45 kílómetra hraða, en gleði þeirra var engu að síður fölskvalaus. „Við höfum sannað að vel er mögulegt að framkvæma þetta,“ segir Waage, stoltur eigandi Ligier JS50-færleiksins sem bar þá á vegferð þeirra.
„Við höfum bara fundið kosti,“ heldur hann áfram og tekur fram að slíkt ferðalag hefði verið óframkvæmanlegt á venjulegri vespu, það er léttu bifhjóli í flokki eitt, eða skellinöðru, flokki tvö, meðal annars vegna skorts á farangursrými. „Einn ókostur gæti þó verið reiðir ökumenn, en þeim höfum við ekki lent í enn sem komið er,“ segir Waage.
Roy Erik Faber Olsen, sölustjóri Mopedbil Norge, er sammála tilraunaökumönnunum ungu um að nöðrubíllinn geti oft reynst betri lausn en hefðbundið létt bifhjól. „Þeir eru áreiðanlegir og margir foreldrar eru einnig ánægðir með öryggið sem þeir veita,“ segir Olsen og á við yfirbyggingu og sætisbelti.
Jonny Rendal, sölumaður hjá Arctic Motor í Bodø, fyrirtæki sem kaupir sína bíla af Mopedbil Norge og selur þá áfram, segir eftirspurnina mikla hjá aldurshópnum sem má aka þessum bifreiðum en ekki „alvöru“ bifreiðum. Finnst unglingum þá ekkert tiltökumál að borga tífalt verð skellinöðru fyrir ökutæki sem þeir munu aðeins nota í tvö ár?
„Oftast létta foreldrarnir undir við kaupin, þeir sjá nefnilega kostina,“ segir Rendal og bendir á að þar sem nöðrubílinn má nota allt árið um kring sleppi foreldrarnir við lýjandi akstursþjónustu, svo sem að aka börnum sínum á íþróttaæfingar og fleira oft í viku. „Svo fylgir því visst frelsi fyrir unglingana að geta farið þangað sem þeir vilja, þegar þeir vilja.“
Ekki deila þó allir rósrauðri sýn sölumannanna og má þar fyrst nefna Kari Vassbotn, umdæmisstjóra norsku umferðaröryggissamtakanna Trygg Trafikk í Nordland-fylki. „Sextán ára unglingar eru viðkvæmur hópur. Á þeim aldrei er maður ekki alveg kominn til vits og ára hvað mat á áhættu og afleiðingum snertir,“ segir Vassbotn, „auk þess hafa fæstir á þeim aldri mikla reynslu af ökutækjum sem taka pláss á veginum.“
Þá bendir hún á þá háskalegu tilhneigingu margra ungra ökumanna nöðrubílanna að fjarlægja merkingu aftan á ökutækinu sem segir ökumönnum fyrir aftan að þar fari ökutæki sem nái aðeins 45 kílómetra hraða. Slíkt sé til þess fallið að valda misskilningi og skapa hættu.
Pål Andersen, talsmaður landssamtaka löggiltra ökuskóla í Noregi, Autoriserte trafikkskolers landsforbund, ATL, snýst á sveif með Vassbotn og bendir á slysatölfræði frá Svíþjóð þar sem aldurshópurinn 15 til 17 ára sé sá sem oftast slasast þegar óhöpp verða, tengd þessum ökutækjum. Enda almennt einu notendur þeirra.
„Mjög hættulegar aðstæður skapast þar [í Svíþjóð] gjarnan á þjóðvegum þegar langferða- og vöruflutningabifreiðar ætla sér að aka fram úr þessum ökutækjum,“ segir Andersen og vísar enn fremur til einkunnagjafar Euro NCAP við árekstraprófanir þar sem nöðrubílarnir fái eina stjörnu af fimm mögulegum. Jafnvel Toyota IQ, einkabíll sem er varla neitt neitt að umfangi, en þó „venjulegur“ bíll, fái fjórar stjörnur.
Hann hefur séð myndbönd af árekstraprófunum nöðrubílanna.
„Þegar þeir skella á veggnum rifna festingar öryggisbeltanna af sem veldur miklu tjóni á ökumanni og farþega. Eitt er að þessir bílar nái 45 kílómetra hraða, annað að þeim er ætlað að vera í umferð með öðrum sem aka á 80 til 90 kílómetra hraða. Það finnst mér ískyggilegt,“ segir Andersen.