Yamaha kynnir vespu með útskiptanlegri rafhlöðu

Mótorhjólið byggir á rafhlöðutækni Gogoro sem hefur m.a. náð mikilli …
Mótorhjólið byggir á rafhlöðutækni Gogoro sem hefur m.a. náð mikilli útbreiðslu í Taívan.

Japanski mótorhjólaframleiðandinn Yamaha hefur svipt hulunni af nýrri rafdrifinni vespu sem hönnuð er í samstarfi við taívanska fyrirtækið Gogoro sem þróað hefur raf-vespur með útskiptanlegum rafhlöðum. Byggir nálgun Gogoro á því að notendur geti gengið að rafhlöðum vísum í þar til gerðum sjálfsölum og skipt tómri rafhlöðu út fyrir fullhlaðna með nokkrum handtökum.

Þarf eigandinn því ekki að stinga vespunni í samband við heimili sitt eða burðast með rafhlöðuna inn í stofu til að tengja hana við rafmagnsinnstungu. Gogoro hefur áður leyft framleiðendum á borð við Hero, Aeonmotor, PGO, eReady og eMoving að hanna vespur í kringum rafhlöðutæknina en fyrirtækið smíðar eigin raf-vespur undir merkjum Smartscooter. Má finna hleðslustöðvar Gogoro í Taívan, Kína og Indónesíu og von á að fyrstu stöðvarnar birtist á Indlandi og í Ísrael síðar á þessu ári.

Verður EMF-vespan í fyrstu aðeins fáanleg á Taívansmarkaði en leitun er að því landi þar sem hlutfall vespueigenda er hærra.

Eins og myndirnar bera með sér hefur EMF-vespan framúrstefnulegt útlit og að sögn framleiðanda á farartækið að fara úr kyrrstöðu upp í 50km/klst. á 3,5 sekúndum. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: