Rafmagnaða rúgbrauðið tekið úr ofninum

Volkswagen hefur tekist að virkja fortíðaþrána við hönnun ID. Buzz.
Volkswagen hefur tekist að virkja fortíðaþrána við hönnun ID. Buzz. Volkswagen

Það gladdi marga bílaáhugamenn í síðustu viku þegar Volkswagen svipti hulunni af lokaútgáfu rafmagnsbílsins ID. Buzz. Hefur spennan magnast allt frá því ID-línan var fyrst kynnt til sögunnar á bílasýningunni í Frankfurt haustið 2019 en VW gaf það út að fjöldi ólíkra módela yrði smíðaður á sama rafmagnaða grunni.

Var smábíllinn ID.3 fyrstur, ID.4 var frumsýndur haustið 2020 en ID.5 og ID.6 komu fyrir sjónir almennigns 2021. Hefur Volkswagen sýnt tölvumyndir af ID. Buzz, en núna hefur endanleg framleiðsluútgáfa bílsins komið í ljós og verður byrjað að taka við fyrstu pöntunum í Evrópu í maí.

ID. Buzz er nokkurs konar rafvæddur arftaki gamla „rúgbrauðsins“, eða Bulli eins Þjóðverjar kölluðu bifreiðina eftir að hún kom fyrst á göturnar um miðja síðustu öld. Naut rúgbrauðið vinsælda bæði sem smárúta, vöruflutningabifreið og ferðabíll, og þykir einhver sérstakasti og skemmtilegasti bíll sem smíðaður hefur verið.

Í sendibílsútgáfu er ID. Buzz afskaplega krúttlegur, svo ekki sé …
Í sendibílsútgáfu er ID. Buzz afskaplega krúttlegur, svo ekki sé meira sagt. Volkswagen

ID. Buzz verður fáanlegur í nokkrum mismunandi útgáfum: Grunnútgáfan, ID. Buzz Pure, verður með sætum fyrir fimm manns og 58 kWst rafhlöðu. ID. Buzz Pro verður einnig fimm sæta, með 1.100 lítra skott og 77 kWst rafhlöðu. ID. Buzz Cargo-útgáfan verður innréttuð fyrir vöruflutninga og á að geta rúmað tvær evrópskar pallettur, og ID Buzz Long-Wheelbase er ætlað að rúma fleiri farþega auk 100 kWst rafhlöðu. Ferðabíllinn ID. Buzz California kemur síðastur á markað, árið 2025.

Er ID. Buzz hlaðinn skynjurum og snjalltækni sem hjálpar til við aksturinn og afstýrir slysum. Á ID. Buzz þannig að búa yfir þeim eiginleika, ef ökumaður leyfir, að nýta gögn frá öðrum bílum í umferðinni og á ökutækið þá að geta stýrt sér sjálft við breytilegar aðstæður.

Í venjulegri vegghleðslu ræður ID. Buzz við allt að 11 kV hleðslu, en einnig má tengja bifreiðina við 170 kV hraðhleðslustöð og lofar Volkswagen að taki þá aðeins 30 mínútur að fylla rafhlöðuna úr 5% í 80%. ai@mbl.is

Ætti bíllinn að geta ekkið sér að miklu leyti sjálfur.
Ætti bíllinn að geta ekkið sér að miklu leyti sjálfur. Volkswagen
Sendibíllinn rúmar tvær pallettur í evrópskri stærð.
Sendibíllinn rúmar tvær pallettur í evrópskri stærð.
ID. Buzz er væntanlegur í nokkrum útfærslum. Ferðabíllinn kemur síðastur
ID. Buzz er væntanlegur í nokkrum útfærslum. Ferðabíllinn kemur síðastur
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: