Stærsta sólarorkuver landsins rís á þaki Brimborgar

Íslenski kuldinn kemur sér vel því á Íslandi eru engar …
Íslenski kuldinn kemur sér vel því á Íslandi eru engar líkur á að sólarsellurnar ofhitni með tilheyrandi orkutapi. Ljósmynd/ Brimborg

Stærsta sólarorkuver á Íslandi og það fyrsta í Reykjavík verður reist á þaki nýs sýningarsals á vegum Brimborgar fyrir Polestar Destination-bíla. Orkuverið mun framleiða um 50 prósent af orkuþörf salarins í kílóvöttum á ársgrundvelli, eða um 24 þúsund kílóvött.

„Sólarorkuver nýta ekki eingöngu beina geisla sólar heldur einnig óbeina geislun, birtuna frá sólinni og þar kemur Ísland sterkt inn með sína löngu daga þar sem mögulegt er hluta úr ári að framleiða rafmagn nánast allan sólarhringinn. Auk þess kemur íslenski kuldinn, aldrei þessu vant, sér vel því á Íslandi eru engar líkur á að sólarsellurnar ofhitni með tilheyrandi orkutapi,“ segir í tilkynningu.

Sýningarsalurinn opnar í vor í húsnæði á lóð Brimborgar við Bíldshöfða en húsnæðið hefur verið endurnýjað með það í huga að spara raforku m.a. með LED-ljósum, ljósastýringu og orkunýtnum raftækjum.

Munu selja umfram orku inn á almenn dreifikerfi

Á hápunkti framleiðslunnar þegar dagar eru lengstir vor og sumar þá mun sólarorkuverið framleiða meiri orku en Polestar-sýningarsalurinn mun þurfa á að halda en engin raforka frá verinu mun fara til spillis.

Umfram orkan verður þá notuð í öðrum byggingum á svæðinu og þannig kemst Brimborg hjá því að fjárfesta í dýrum geymslulausnum fyrir raforku.

Einnig verður settur upp búnaður sem gerir félaginu kleift að selja umframorku til baka inn á almenna dreifikerfi raforku ef á því þyrfti að halda, til að mynda á sunnudögum eða opinberum frídögum þegar lítil sem engin starfsemi er hjá Brimborg.

Gefa út sjálfstætt sjálfbærniuppgjör

Brimborg er fyrst bíla- og atvinnutækjaumboða á Íslandi og fyrsta ökutækjaleigan á Íslandi að gefa út heildstætt sjálfbærniuppgjör og er þetta stóra vistskref í samræmi við umhverfisstefnu fyrirtækisins, sem innleidd var árið 2007.

Sjálfbærniuppgjörið upplýsir meðal annars um umhverfisáhrif starfsemi Brimborgar og samkvæmt umhverfisstefnu félagsins, skal unnið skipulega að því að draga úr þessum áhrifum. Þetta vistskref Brimborgar byggir á auknum orkusparnaði annars vegar og hins vegar virkjun sólarinnar til raforkuframleiðslu.

Hvetja önnur fyrirtæki til að feta í sín fótspor

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir:

„Orkuskiptin eru gríðarlegt hagsmunamál fyrir Íslendinga og þar þurfa fyrirtæki að leggja sitt af mörkum enda ávinningur mikill af því að vinna markvisst að orkuskiptum og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Stór skref Brimborgar til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, nýta betur núverandi orku og með staðbundinni raforkuframleiðslu hafa margvísleg jákvæð áhrif og skapar fordæmi fyrir önnur fyrirtæki að fylgja í fótspor Brimborgar. 

Ef öll fyrirtæki myndu fylgja í fótspor Brimborgar væri hægt að nota orkuna sem sparast til orkuskipta fyrir rafbíla og tengiltvinnbíla án þess að virkja meira.“

Á árinu 2021 fjárfesti Brimborg fyir 520 milljónir í margvíslegum sjálfbærniverkefnum. Þar má nefna uppsetningu LED-ljósa í fasteignum félagsins, uppsetningu fjölda hleðslustöðva á starfsstöðvum sínum, bæði til hæghleðslu  og hraðhleðslu og til kaupa á bílum sem ganga fyrir rafmagni.

mbl.is