Glatt var á hjalla á samkomu Ferðaklúbbsins 4x4 þann 10. mars síðastliðinn en þar var haldið upp á 40 ára afmæli félagsins. Var stefnan sett á Akureyri og áætlar Sveinbjörn Halldórsson að þegar mest lét hafi um 300 bílar félagsmanna fyllt bæinn: „Viðburðurinn var sóttur af fólki af landinu öllu og í veislu sem haldin var í Síðuskóla um kvöldið sátu um 450 manns til borðs,“ segir Sveinbjörn en hann er formaður félagsins.
Var tækifærið líka nýtt til aksturs um íslenska náttúru, enda jörð frosin og snæviþakin. Flotanum var skipt niður í minni hópa, með 40 til 50 bifreiðar í hverjum hópi, og m.a. haldið í átt að Flateyjardal, upp á Vaðlaheiði og inn á Súlumýrar.
Ferðaklúbburinn 4x4 var settur á laggirnar með það sem aðalmarkmið að fá stjórnvöld til að breyta reglum um akstur breyttra jeppabifreiða. „Á þessum tíma ríkti lagaleg óvissa um hvort heimilt væri að aka þessum bifreiðum á almennum vegum og átti lögreglan það til að elta breytta jeppa uppi, senda þá aftur heim til sín og jafnvel klippa af þeim númerin. Var svo komið að eigendurnir sáu sér stundum þann eina kost færan að reyna að læðast úr bænum þegar löggan gat ekki séð til, eða halda af stað á dekkjum í venjulegri stærð og svo skipta yfir í stóru torfærudekkin þegar komið var á áfangastað úti á landi.“
Stofnfundurinn var haldinn í Sjómannaskólanum í Reykjavík þann 10. mars 1983 og var sóttur af um 50 manns.
Sveinbjörn segir komu fjórhjóladrifinna bíla til landsins hafa verið mikla framför í samgöngum á Íslandi og mörkuðu bandarísku Willys-herjepparnir kaflaskil í íslenskri bílasögu: „Íslenskir bændur voru t.d. fljótir að finna not fyrir þessi ökutæki enda vegakerfið ekki upp á marga fiska lengi fram eftir síðustu öld,“ segir hann. „Sennilega var það á 8. áratugnum sem tilraunir hófust með að breyta jeppum og setja undir þá stærri dekk til að þeir réðu betur við akstur í snjó, og vatt það fljótt upp á sig.“
En sem fyrr segir féllu breyttu jepparnir ekki að regluverkinu og þurftu jeppamenn að taka höndum saman: „Eftir stofnun klúbbsins var sett á laggirnar dekkjanefnd sem síðan hélt á fund Bifreiðaeftirlits ríkisins sem þá var stýrt af Guðna Karlssyni. Hann sýndi málinu áhuga og eftir frekari viðræður og skoðun tæknimanna voru samin drög að reglugerð sem hefur verið í gildi allt frá árinu 1984,“ segir Sveinbjörn söguna.
Reglugerðin fól m.a. í sér að setja staðla um stærð dekkja og radíus, hvernig standa ætti að smíðinni þegar bílum væri breytt og hvernig ætti að hátta skoðanaskyldu. „Bifreiðaeftirlit í þá daga var ekki jafn tæknivætt og í dag, og þegar breyttu jepparnir voru skoðaðir var hafður sá háttur á að þeim var ekið ákveðna leið með allt í botni, og snarhemlað til að athuga hvernig bílarnir bremsuðu.“
Eftir að regluverkið var lagfært hefur starfsemi félagsins haldið áfram að þróast og dafna. Hagsmunabarátta leikur enn stórt hlutverk í starfsemi Ferðaklúbbsins 4x4 og segir Sveinbjörn félagið beita sér fyrir ferðafrelsi á Íslandi: Víða hafi verið reynt að þrengja að frelsi fólks til að ferðast um land í almannaeign og stundum rati í lagafrumvörp ákvæði sem myndu gera almenningi erfiðara fyrir að skoða landið. „Nú síðast þurftum við að berjast gegn ákvæðum í nýjum náttúruverndarlögum sem kváðu á um að búa til svokölluð kyrrlát svæði sem væru í reynd svæði þar sem engin ökutæki mættu koma inn. Þá er enn deilt um akstur á tilteknum reitum, eins og í Vonarskarði í Vatnajökulsþjóðgarði.“
Segir Sveinbjörn að brýnt sé að eiga í góðu samtali um umferð á hálendinu svo allir geti notið náttúrunnar eins og þeir óska, og reikna megi með að umferðin fari vaxandi m.a. vegna mikils áhuga erlendra ferðamanna á ferðum á sérútbúnum jeppum sem komast hvert á land sem er. „Ég heyrði skemmtilega og lýsandi sögu frá einum félagsmanni okkar sem var uppi á Vatnajökli á breyttum jeppa og sér þar til skíðamanna á göngu. Hún ekur í átt til þeirra til að athuga hvort mætti verða þeim að liði, en skíðafólkið varð heldur betur óhresst að hún skyldi koma svona nálægt þeim á jeppanum. Degi seinna ekur hún aftur fram á skíðamennina, og gætir þess að taka stóran sveig fram hjá þeim til að valda ekki ónæði, en þá kom í ljós að skíðamennina vantaði einmitt aðstoð.“
Höfuðstöðvar Ferðaklúbbsins 4x4 eru í Reykjavík en tíu deildir eru starfræktar hringinn í kringum landið og félagsmenn meira en 5.000 talsins. Þá starfa margar nefndir innan félagsins og er umhverfisnefndin sú stærsta. „Hennar helstu verkefni eru stikun, gróðursetning og ferðafrelsismál, forvarnir og lagfæringar á sárum eftir akstur utan vega,“ útskýrir Sveinbjörn. Þá starfrækir félagið „litlu nefndina“ sem er ætluð byrjendum og hjálpar þeim að læra að aka breyttum jeppum við krefjandi aðstæður og ganga vel um náttúruna. „Við bjóðum upp á sérstakar nýliðaferðir, og einnig er stór og öflug nefnd sem skipuleggur kvennaferðir, og þá er starfrækt hjá félaginu ungliðanefnd helguð yngsta fólkinu.“
Ekkert lát er á vinsældum félagsins: „Ferðaklúbburinn 4x4 er í senn hagsmunafélag, félagsskapur fólks sem hefur gaman af að aka um á fjórhjóladrifsbílum, og fólks sem hefur áhuga á náttúruvernd og náttúruskoðun,“ segir Sveinbjörn og undirstrikar að allt frá stofnun hafi félagsmenn lagt sig fram við að njóta náttúrufegurðar Íslands á vistvænan og ábyrgan hátt.
Þessi grein birtist upphaflega í Hestöflum - Bílablaði Morgunblaðsins 21. mars síðastliðinn.