Fyrirboðar niðursveiflu halda niðri olíuverðinu

Neikvæðar horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum munu að óbreyttu halda aftur …
Neikvæðar horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum munu að óbreyttu halda aftur af hækkun olíuverðs. Ljósmynd/Colourbox

Neikvæðar horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum munu að óbreyttu halda aftur af hækkun olíuverðs.

Þetta er mat Þórðar Gunnarssonar hagfræðings en tilefnið er samkomulag OPEC+-ríkjanna í byrjun mánaðar. Samkvæmt því verður dregið úr olíuframleiðslu og mun Sádi-Arabía m.a. minnka hana um milljón tunnur á dag.

Að öllu jöfnu ætti það að leiða til verðhækkana en verðið hefur haldist nokkuð stöðugt í vikunni.

Kort/mbl.is

Þórður segir að ásamt lakari horfum í alþjóðahagkerfinu hafi fregnir af hugsanlegu samkomulagi við Íran um kjarnorkuáætlun landsins haft áhrif. Þannig séu nú væntingar um aukið framboð olíu frá Íran en það sé til þess fallið að halda aftur af hækkunum. Almennt séu það þó fyrst og fremst almennar efnahagshorfur sem haldi aftur af hækkunum. Meðal annars þyki nýjustu verðbólgumælingar í Kína benda til að farið sé að hægja á hagkerfinu en verðbólgan nálgast þar núllið. Þá séu skammtímavextir í Bandaríkjunum töluvert hærri en langtímavextir en margir telji það traustan fyrirboða um efnahagsniðursveiflu. Staðan sé ekki ósvipuð og eftir byltingu klerkastjórnarinnar í Íran 1979. Orkukreppa hafi átt þátt í vaxtahækkunum, líkt og þá, og það aukið líkur á niðursveiflu í heimshagkerfinu.

Rússnesk olía til Evrópu

Þá bendir Þórður á að eftir að viðskiptaþvinganir gegn Rússum voru hertar 5. febrúar síðastliðinn hafi útflutningur Rússa á hráolíu til Indlands aukist markvert. Samtímis hafi útflutningur Indverja á díselolíu til Evrópu aukist. Það bendi til að rússneska olían sé enn seld í Evrópu en á hærra verði vegna aukins flutningskostnaðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: