Smár, knár og með stóra drauma

Bert Eelen og Simon Humphries stilla sér upp við LBX. …
Bert Eelen og Simon Humphries stilla sér upp við LBX. Bíllinn þykir kraftalegur í laginu. Jeroen Peeters

Lexus kynnti á dögunum til sögunnar bílinn LBX og standa vonir til að hann marki kaflaskil í sögu fyrirtækisins.

Um er að ræða fyrsta smáa sportjeppan frá framleiðandanum og verður LBX ódýrasti Lexusinn á markaðinum, og um leið minnsti bíllinn í fjölskyldunni – 30 cm styttri en Lexus UX og heilum 47 cm styttri en NX. Ætti LBX því að vera kjörinn fyrir borgarumferð en á sama tíma státar bifreiðin af ágætis veghæð, þægilegri sætishæð og hæfilega rúmgóðu skotti (332 l) svo að notagildinu eru engar skorður settar. Mun LBX fást sem tvinnbíl með 1,5 lítra bensínvél og mun verðið liggja fyrir í október.

Kom það fram á kynningu á bílnum í Mílanó að þrátt fyrir að vera nettari og ódýrari en bræður sínir þá verður LBX enginn eftirbátur annarra Lexus bifreiða þegar kemur að gæðum, vönduðum frágangi, fallegri hönnun og tækni.

Áfram Lexus þrátt fyrir verðmiðann

Blaðamaður Morgunblaðsins lét sig ekki vanta á kynninguna og tók tali þá Simon Humphries, vörumerkjastjóra Toyota Motor Corporation, og Bert Eelen, yfirmann markaðs- og þróunarmála hjá Lexus Europe, til að fræðast nánar um hvað Lexus gengur til með þessu útspili.

Spurður um hvort það feli ekki í sér áhættu fyrir lúxusvörumerki að fikra sig ögn niður á við í stærð og verði segir Humphries að þess hafi verið vandlega gætt í hönnunarferlinu að gefa engan afslátt af gæðunum. „Það væri varasamt að hafa það eitt að leiðarljósi að búa til minni bíl með lægri verðmiða. Þá vildum við líka gæta þess að LBX, eins og allar aðrar bifreiðar sem Lexus framleiðir, hefði sinn sess og afgerandi sérkenni rétt eins og önnur módel fyrirtækisins. Útkoman er bifreið sem stendur fyrir sínu,“ segir hann og bætir við að þrátt fyrir að LBX muni þykja ódýr í samanburði við aðra Lexusa þá megi seint kalla LBX „ódýran“ bíl.

Gæðin og verðið eru heldur ekki á kostnað fjölbreytninnar og vakti athygli að kaupendur munu ráða miklu um útlit LBX bæði að innan og utan, og er t.d. innréttingin fáanleg í nokkrum útgáfum, með ólíkum litum og áklæðum, og meira að segja hægt að velja um bílbelti í mismunandi litum.

LBX er 30-47 cm styttri en stærri bræður hans í …
LBX er 30-47 cm styttri en stærri bræður hans í Lexus fjölskyldunni. Jeroen Peeters

Ætla sér góðan skerf af markaðinum

Í kynningarefni LBX er þeirri stefnu sem Lexus tekur með nýja bílnum líkt við það þegar stóru tískumerkin fundu upp á því, hér um árið, að framleiða lúxusstrigaskó. Útkoman var vara sem sló í gegn og sameinaði þægindi, notagildi og íburð. Eelen segir að rétt eins og strigaskórnir hafi ekki dregið úr slagkrafti sterkustu vörumerkja tískuheimsins sé ekki verið að útþynna Lexus-merkið með LBX nema síður sé. „Með þessum bíl er Lexus að ryðja sér braut inn á nýjan kima markaðarins, og LBX ætti að reynast góð og gild viðbót við vöruframboðið rétt eins og varð raunin þegar BMW og Mercedes-Benz bættu smærri bifreiðum við úrvalið hjá sér.“

Bindur Lexus miklar vonir við LBX og ætti bíllinn ekki síst að eiga erindi við Evrópumarkað og bitastæða markaði í Asíu þar sem neytendum þykja iðulega minni bifreiðar heppilegri kostur en fyrirferðarmiklir bílar, og gera áætlanir framleiðandans ráð fyrir því að bara í Evrópu takist að selja um 25.000 LBX árlega sem myndi þýða að nærri þriðjungi fleiri Lexus-bifreiðar komi á götuna í álfunni ár hvert.

Kaupendahópurinn segir Eelen að verði m.a. yngri kaupendur, ungt fagfólk sem fær fyrirtækisbíl til umráða og svo eldri kaupendur í leit að viðbótarbíl fyrir heimilið. „Við búumst við góðri eftirspurn frá fólki sem á nú þegar stærri bíl frá Lexus en vantar hentugan bíl númer tvö á heimilið ýmist til eigin nota eða fyrir unga fólkið á heimilinu,“ útskýrir hann og bætir við að með því að ná til yngri hóps ökumanna takist Lexus vonandi að skapa trygga viðskiptavini enda sýni reynslan að þegar fólk hefur á annað borð átt Lexus þá heldur það tryggð við merkið.

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 20. júní 2023.

Kaupendur munu geta valið innréttingar í fjölmörgum útfærslum og litum …
Kaupendur munu geta valið innréttingar í fjölmörgum útfærslum og litum og LBX verður hlaðinn tækni. Jeroen Peeters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina