Rafbílaeigendur ekki greitt fyrir notkun á vegakerfinu

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti m.a. gjöld á rafbíla.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti m.a. gjöld á rafbíla. mbl.is/Árni Sæberg

Ívilnanir fyrir rafbíla eru smátt og smátt að láta undan og í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun er kveðið á um aukin gjöld á rafbílaeigendum. Eftir sem áður verður hagkvæmt að kaupa græna bíla og rekstur þeirra ódýrari en annarra bíla að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. 

„Við höfum verið með mjög miklar ívilnanir fyrir rafbíla til skamms tíma,“ segir Bjarni.

Bendir hann á að vörugjöld hafi til skamms tíma verið 0%. Tekið var upp 5% vörugjald um síðustu áramót. Eins var lægra bifreiðagjald á rafbílum auk þess sem virðisaukaskattsívilnanir voru á rafbílakaup sem dregið hefur verið úr.

„Svo gleymist stundum að nefna að rafbílaeigendur koma með engu móti að því að greiða fyrir notkun á vegakerfinu. Það hefur því verið augljóst að við myndum þurfa að finna eitthvað nýtt jafnvægi í gjaldtöku af ökutækjum í umferð,“ segir Bjarni.

Eftir sem áður ódýrara að eiga rafmagnsbíl

Hann bendir á að Ísland sé með næst hæst hlutfall rafbíla í heiminum þegar kemur að heimilum landsins. Því hafi orkuskiptin gengið vel.

„Við erum vissulega að draga úr þessum ívilnunum. Eftir sem áður verður til staðar stuðningur til að kaupa sér hagkvæmari græna bíla og það verður sömuleiðis ódýrara og hagkvæmara að reka rafmagnsbíl,“ segir Bjarni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina