Gefur stjórnvöldum falleinkunn

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. Samsett mynd/mbl.is/sisi/Árni Sæberg

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir að félaginu hugnist hugmyndafræðin um að skattleggja notkun á innviðum með kílómetragjaldi. Lengri yfirlegu hefði þó þurft sem og betri útfærslu.

Hann segir í samtali við mbl.is að félagið gagnrýni sem fyrr að þessar hugmyndir séu settar fram nánast kortéri í að þetta eigi að bresta á.

Ekki vönduð stjórnsýsla

„Það vantar enn einhverja útfærslu á ívilnun varðandi kaup á rafbílum. Það á að vera sjóður sem hægt verður að sækja í en við vitum ekki upphæðirnar eða formið sem virðist enn vera í vinnslu. Í ljósi þess að fjármálaáætlun hefur legið fyrir lengi og fjárlagafrumvarpið var lagt fram í byrjun hausts, þá er þetta nú ekki vönduð stjórnsýsla.

Þetta er mjög bjagað og fólk er að taka ákvarðanir um næsthæsta útgjaldaþátt heimilisins sem eru samgöngurnar. Þetta á að vera betur ígrundað og stjórnvöld fá ákveðna falleinkunn varðandi framkvæmdina.“

Segir Runólfur að FÍB muni senda inn umsögn vegna málsins en áform um lagasetninguna hafa verið birt í samráðsgátt.

„Við fögnum auðvitað þessum hugmyndum enda er það ljóst að rafbílar og tengiltvinnbílar myndu þurfa að bera hluta af kostnaði við notkun á innviðum. Við lögðum fram tillögur á vormánuðum með ákveðnum reikniforsendum og settum fram reiknivélar. Þá tókum við líka bifreiðagjaldið inn í kílómetragjaldið og þá var fólk alltaf meðvitað um hvað ferðin kostaði. Það gat hreinlega reiknað það út.“

Gæti verið neikvæður hvati

Runólfur segir að samkvæmt drögunum sé eingöngu talað um eitt gjald, 6 krónur á kílómetrann. Þannig verði sama gjald á 3,5 tonna bíl og 1,5 tonna bíl.

„Við setjum ákveðinn fyrirvara við það og við teljum gjaldið of hátt í tilfellum minni og léttari rafbíla. Samanburðardæmi sýna að í einhverjum tilfellum er sambærilegur bensínbíll miðað við þyngd og notagildi að bera lægri notkunargjöld en rafbíllinn í því tilviki.

Þá teljum við að of hátt gjald gæti orðið neikvæður hvati varðandi vilja fólks til að fjárfesta í rafbílum.“

Gott að losna við olíukaup í erlendum gjaldeyri

Það þarf að huga að því hvernig þetta fellur að markmiðum stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum og að draga úr losun á koltvísýringi að mati Runólfs.

„Svo er auðvitað þessi hagræni hvati fyrir samfélagið að geta komist sem mest út úr olíukaupum í erlendum gjaldeyri og nýta innlenda endurnýjanlega orku. Það er auðvitað mjög jákvætt skref fyrir samfélagið eins og er sagt á tyllidögum.

Það virðist sem dagsskipunin hafi verið 3 milljarðar í tekjur í ríkissjóð og okkur finnst þetta vera of einföld lausn. Eitt gjald á alla fólksbíla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina