Sjötíu ár eru liðin frá því að Sigfús Bjarnason, stofnandi bílaumboðsins Heklu, hóf innflutning á Volkswagen bifreiðum og þar með hófst saga Volkswagen á Íslandi. Því verður blásið til 70 ára afmælissýningar Volkswagen á Íslandi á morgun, laugardag.
Sýningin er haldin á Laugavegi 174, frá klukkan 12 til 16.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bílaumboðinu Heklu en umboðið býður landsmenn velkomna í kaffi og afmælisköku. Í tilefni af afmælinu verða ýmsar Volkswagen bifreiðar á sérstökum afmæliskjörum.
Ófáir Íslendingar eiga minningar um Volkswagen enda hefur bílinn verið ferðafélagi margra í gegnum árin. Sýningarsalir Heklu verða litaðir sögu Volkswagen og er af nægu að taka á 70 ára farsælli sögu.
Til sýnis verða auk nýrra Volkswagen bifreiða, allar Golf kynslóðirnar – frá MK1 upp í MK8, gamla rúgbrauðið, nokkrar gerðir af Volkswagen Bjöllum að ógleymdum forkunnafögrum Volkswagen Karman Ghia.
„Það má segja að þarna sé einstakt tækifæri fyrir bílaáhugamenn og aðra velunnara Volkswagen að sjá þessar glæsilegu bifreiðar samankomnar,“ segir í tilkynningunni.