Fiat opnar bílaverksmiðju í Alsír

Verksmiðjan nýja í Alsír mun framleiða fullkomnari farartæki en hinn …
Verksmiðjan nýja í Alsír mun framleiða fullkomnari farartæki en hinn fornfræga Fiat 500. AFP

Ítalski bílaframleiðandinn Fiat opnaði í dag fyrstu bílaverksmiðju sína í Alsír. Er vonast til að tilkoma verksmiðjunnar muni lífga upp á bílamarkaðinn í landinu.

Kaup og sala á bílum hefur gengið illa eftir að stjórnvöld í Alsír tóku þá ákvörðun árið 2019 að stöðva innflutning bifreiða og að loka skyldi bílaverksmiðjum í landinu.

Forseti Alsír, Abdelmadjid Tebboune, sagði á sínum tíma að eini tilgangur verskmiðjanna væri að setja dekk á bíla sem þegar væri búið að setja saman í skiptum fyrir ríflegar skattaívilnanir.

Verksmiðjan sem opnaði í dag í borginni Oran er fyrsta verksmiðjan sem hefur verið opnuð í forsetatíð Tebboune. Mun verksmiðjan ná yfir fjörtíu hektara land og er fjárfesting upp á rúma þrjátíu milljarða króna og mun skaffa 1.200 störf.

Valentino Valentini hjá Fiat sagði að versmiðjunni sé ætlað að framleiða tæknilega fullkomna bíla, þeirrar gerðar sem draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum.

mbl.is

Bloggað um fréttina