Ástæða fyrir andvaraleysi N1

Kempower-hleðslustöð N1 í Keflavík. Fyrirhugað er að setja samskonar stöð …
Kempower-hleðslustöð N1 í Keflavík. Fyrirhugað er að setja samskonar stöð upp á N1 Egilsstöðum. Ljósmynd/N1

Ásta Fjeldsted forstjóri Festar segir það mjög miður – en rétt, hjá Tómasi Kristjánssyni, formanni Rafbílasambands Íslands, að ríkt hafi ákveðið andvaraleysi hjá fyrirtækinu hvað varðar hleðslustöð N1 fyrir rafbíla á Egilsstöðum.

Stöðin hefur verið biluð í nokkurn tíma og segir Ásta að nokkrar ástæður séu fyrir því að ekki hafi verið brugðist við fyrr.

„Við tókum ákvörðun fyrr í sumar um að setja upp nýja, öflugri hraðhleðslustöð á Egilsstöðum og var hún loksins að berast til okkar. Næstu skref er setja hana upp, tengja og koma í gagnið sem allra fyrst,“ segir Ásta. 

Ásta gegnir jafnframt tímabundið stöðu framkvæmdastjóra N1 þar sem Ýmir Örn Finnbogason lét af störfum í lok júní. 

Erfitt að fá íhluti í eldri hleðslustöðvar

Hún nefnir að N1 hafi hafið mjög snemma að byggja upp innviði fyrir rafbíla á Íslandi. Elstu hraðhleðslustöðvar sem fyrirtækið notist við séu frá árinu 2018 og tæknin hafi þróast hratt síðan.

Stöðin á Egilsstöðum er frá þeim tíma og þegar hún bilaði hafi verið erfitt að fá þá íhluti sem þurfti til að koma henni í lag.

Ákveðið að endurnýja sökum tafar

Einnig eru áform uppi um breytingar á skipulagi á svæðinu og uppbyggingu Tesla-hraðhleðslustöðva við þjónustustöðvar N1. Því hafi dregist að bregðast við með viðeigandi hætti. Vegna tafarinnar var ákveðið að endurnýja stöðina á Austurlandi.

„Við viljum að sjálfsögðu tryggja rekstaröryggi hraðhleðslustöðva svo fólk geti stólað á þjónustu þegar það er á ferðinni um landið á rafbílum sínum,“ segir Ásta.

Búnaðurinn sé tæknilega flóknari en bensíndælur þar sem mörg kerfi þurfi að geta talað saman.

Hún segir markmið N1 að tækla þessa áskorun og allir eigi að geta hlaðið bílinn sinn með vissu um stuttan biðtíma, örugga virkni og einfalt notendaviðmót um land allt.

Fjölga hraðhleðslustæðum um 150 stæði

Greint var frá því í febrúar að N1 og Tesla hefðu gert ramma­samn­ing um uppbyggingu hraðhleðslu­stöðva við þjón­ustu­stöðvar N1 um allt land á næstu tveimur árum. Ásta segir að þær hleðslustöðvar verði aðgengilegar öllum rafmagnsbílum.

„Með fyrirhugaðri uppbyggingu vill N1 leitast við að tryggja aðgengi allra að öruggri rafhleðslu,“ segir Ásta.

„Áform eru uppi um nítján nýja hraðhleðslugarða á næstu tveimur árum og mun hraðhleðslustæðum við þjónustustöðvar N1 fjölga um meira en 150 á þessu tímabili.“

mbl.is

Bloggað um fréttina