„Mér finnst eyðslan hafa aukist og jafnframt er komin gangtruflun,“ segir bréfritari. Orsökin virðist ekki vera ýkja flókin og viðgerð auðveld viðfangs.
„Mér finnst eyðslan hafa aukist og jafnframt er komin gangtruflun,“ segir bréfritari. Orsökin virðist ekki vera ýkja flókin og viðgerð auðveld viðfangs. — Morgunblaðið/ÞÖK
Óeðlilegt slit í framhjólslegum? Spurt: Ég er með 1999 árgerð af Ford Explorer með 4.0 V6-vél. Driflokur eru handvirkar og dekk af upprunalegri stærð. Vandinn er sá að los myndast alltaf í nafarlegunum að framan báðum megin, þó meira bílstjóramegin.

Óeðlilegt slit í framhjólslegum?

Spurt: Ég er með 1999 árgerð af Ford Explorer með 4.0 V6-vél. Driflokur eru handvirkar og dekk af upprunalegri stærð. Vandinn er sá að los myndast alltaf í nafarlegunum að framan báðum megin, þó meira bílstjóramegin. Sé hert upp á legunum er komið los í þær eftir 7-8 þús. km. Ég endurnýjaði legurnar bílstjóramegin og herti þær samkvæmt bókinni en los var komið í þær tæpu ári seinna. Er þetta eitthvað þekkt og algengt í þessum bílum? Hvað getur valdið þessu?

Svar: Þetta er þekkt í fjórhjóladrifnum bílum með Dana-liðhásingu að framan. Í þínu tilfelli er hásingin af gerðinni Dana/Spicer 35-IFS. Vegna þess að hún er samsett um lið fjaðrar hvort hjóla sjálfstætt. Til að mæta inn- og út-hreyfingu sem sveifla hjólanna myndar eru dragliðir á öxlinum farþegamegin. Óeðlilegt slit í framhjólslegum er vegna lakrar hönnunar, stundum vegna ofherslu, stundum vegna ónýtra hjöruliðskrossa eða rangrar hjólastillingar (millibil á þessum bíl að vera jafnt, þ.e.s á núllinu). Ytri dragliðurinn vinstra megin á það til að festast en við það geta hjóllegur slitnað. Oft má sjá á dekkjum hvort vísun þeirra sé rétt eða röng. Slitni framdekk meira á innri jaðrinum er bíllinn of útskeifur. Slitni þau meira á ytri jaðrinum hann of innskeifur (sú hlið dekks, sem bíllinn ryður á undan sér, slitnar meira).

Range Rover: Úr 17 lítrum í 12,5

Spurt: Eyðsla Range Rover SE 1997 með 4.0 V8-bensínvél hefur verið að aukast smám saman úr 12,5-13 í 17 lítra á sl. 6 mánuðum og fylgdi leiðinlegur gangur í vélinni sem breyttist ekkert með ísvara. Fyrir skömmu kviknaði „Check Engine-ljósið.“ Kóðalestur skilaði „Misfiring.“ Eitt af 4 háspennukeflum reyndist ónýtt. Ég skipti sjálfur um keflið og kertin um leið. Gangurinn varð eðlilegur og eyðslan stórminnkaði. En bilunarljósið lýsir áfram. Mér var sagt að það myndi slokkna væri rafgeymirinn aftengdur í 2-3 mín en það breytir engu! Hvað veldur?

Svar: Ný 4ra lítra V8-vél tók við af eldri 3,9 lítra í Land Rover (Discovery og Range Rover) frá og með árgerð 1996. 4ra lítra vélin er með annað vélstýrikerfi sem er frábrugðið því eldra, m.a. á þann hátt að bilunarkóðar verða ekki afmáðir úr minni né bilunarljós slökkt nema með OBD-lesara eða greiningartölvu.

Toyota Corolla: Bensíneyðsla aftur eðlileg

Spurt: Ég er með gamlan sjálfskiptan Toyota Corolla með 1800 vél. Bíllinn hefur fengið reglulegt þjónustueftirlit og aldrei bilað þótt 150 þús. km séu að baki – þ.e. fyrr en nú að mér finnst eyðslan hafa aukist verulega og jafnframt er komin gangtruflun sem lýsir sér þannig að þegar inngjöf er sleppt og hægt á, t.d. farið inn á afrein af Vesturlandsvegi, hikstar vélin og drepur á sér. Hún fer strax í gang aftur og gengur eðlilega þar til aftur er hægt á. Þetta gerist aldrei þegar vélin er köld. Bilunarljós lýsir ekki og engin aukahljóð fylgja þessu.

Svar: Lýsing þín bendir ákveðið til að bilun sé í svokölluðum „hringrásar-loka“ (EGR) sem veitir hluta af súrefnissnauðum útblæstri aftur inn í brunahólfin til að lækka brunahitann (veikir blönduna) og minnka mengun í útblæstri vélarinnar. Oft er þessi loki (leggur hans) stirður af sóti eða sótúfellingar á keilu koma í veg fyrir að hún setjist þétt – lokinn lekur – blandan verður of veik fyrir heita vélina þegar inngjöf er sleppt. Oft dugar að losa EGR-lokann, sem þekkist af því að hann er í laginu eins og hattsveppur, af og þrífa þar til hann er laus og liðugur og helst þéttur. Framtakið er nokkurs virði því nýr EGR-loki kostar sitt. Þetta er einföld aðgerð sem flest lagtækt fólk getur leyst sjálft af hendi. Öll verkstæði geta leyst þetta mál á tveimur klst.

Ábending

Mismunandi eldsneyti – mismunandi eyðsla?

Að undanförnu hef ég, Leó M. Jónsson, verið að prófa bensín. Bíllinn er handskiptur station-bíll með 1600-vél. Bílnum, sem er í topplagi, er ekið 5 daga vikunnar frá Suðurnesjum á ákveðinn stað í Reykjavík og til baka. Hleðsla bílsins er alltaf sú sama og veður hefur verið svipað. 25 ml af ísvara er blandað í hverja tankfylli. Niðurstaða minna mælinga (dagsetning á við enduráfyllingu):

A. 24/2/11: N1, 98 oktan, 40 lítrar. 434 km. Eyðsla 9,21 l/100 km.

B. 2/3/11: Skeljungur, 95 oktan, V-Power, 43 lítrar. 491 km. Eyðsla 8,75 l/100 km.

C. 8/3/11: Orkan, 95 oktan, 47 lítrar. 461 km. Eyðsla 10,2 l/100 km.

Mestur munur er 14% á þessum 3 mælingum. Mælingum verður haldið áfram.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)