Nissan Pulsar er þægilegur og sparneytinn en gaman hefði verið að sjá lægra verð á honum.
Nissan Pulsar er þægilegur og sparneytinn en gaman hefði verið að sjá lægra verð á honum. — Morgunblaðið/Malín Brand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kominn er í sölu Nissan Pulsar hjá umboðinu BL. Nafnið ætti að hringja einhverjum bjöllum hjá einhverjum en Pulsar er ekki ný undirtegund hjá framleiðandanum þó svo að hún hafi ekki verið áberandi í nokkurn tíma.

Kominn er í sölu Nissan Pulsar hjá umboðinu BL. Nafnið ætti að hringja einhverjum bjöllum hjá einhverjum en Pulsar er ekki ný undirtegund hjá framleiðandanum þó svo að hún hafi ekki verið áberandi í nokkurn tíma. Bíllinn var framleiddur með þessu nafni frá árinu 1978 til 2005 og svo aftur frá árinu 2013. Það er best að fara ekki of djúpt ofan í nafnabreytingar á tegundum á milli heimsálfa því þá fyrst gætu lesendur orðið ringlaðir. Þess vegna skulum við fjalla frekar um bílinn sjálfan.

Kátur farþegi í aftursæti

Það fyrsta sem fangaði athygli blaðamanns þegar bíllinn var skoðaður fyrir ökuferðina var óvenjumikið fótarými í farþegarýminu að aftan. Fyrst grunaði mig að framsætin væru í fremstu stöðu en svo var ekki. Fótarýmið er sannarlega með því mesta sem undirrituð hefur veitt athygli um dagana í fólksbílum og minnist þess ekki að hafa séð annað eins nema þá helst aftur í Skoda Superb. Það ætti því að vera rúmt um þá leggjalöngu aftur í þessum bíl og lítil hætta á að ungir farþegar nái að reka fætur í framsætin. Það er líka rúmgott fram í bílnum en þar varði ég nú mun meiri tíma. Innréttingin er stílhrein, dökk og ekki er verið að hringla með margs konar áferð heldur er hún snyrtileg og virðist hafa allt til að bera til að endast vel og eldast vel. Það á nú sannarlega ekki við um allar bílainnréttingar.

Er hann „grænn“?

Sumir bílar eru grænni en aðrir, sama hvernig þeir eru á litinn. Losun bílvéla á CO 2 skiptir marga ökumenn máli og því lægra gildi þeim mun betra að mati þeirra sem ætla sér að skilja smátt kolefnisfótspor eftir sig á jarðarkúlunni. Beinskipt dísilútgáfa af Pulsar er á góðum stað á græna kvarðanum og losar um 94 g af CO 2 á kílómetra. Það þykir býsna gott. Bensínútfærslurnar eru líka í svipuðum flokki, sá beinskipti með 117 g og sjálfskiptur með 119 g. Þá komum við að eyðslutölunum sem er einmitt það sem undirrituð hefur gríðarlegan áhuga á, burtséð frá eldsneytisverði. Á leiðinni Selfoss-Reykjavík var eyðslan nákvæmlega 4,3 lítrar á hundraðið og það er flott. Í blönduðum akstri var hann rétt innan við 6 lítrana. Aflið er þokkalegt en bíllinn sem var til prófunar er dísilbíll, beinskiptur og með 1.500 vél sem skilar 110 hestöflum. Það ætti að duga flestum og því fer fjarri að bíllinn sé vélarvana þó að hann eigi ekkert erindi á kvartmílubrautina frekar en aðrir fjölskyldubílar.

Aksturseiginleikar og geta

Hvernig var þetta? Jú, bíllinn er „viðkunnanlegur“ ef svo má segja en samt tiltölulega karakterlaus. Hann beygir þegar maður snýr stýrinu, stýrið er þægilegt og leðurklætt, handbremsan er gamaldags og góð (sem er frábært), stöðugleikakerfið virkaði og allt var nákvæmlega eins og það á að vera. Ekkert meira og ekkert minna. Hann var prófaður í afleitri færð og ég var að hugsa um að segja að drifgetan í snjó hefði ekki verið nógu góð en sá að það er einfaldlega ekki réttlátt því samanburðurinn er enginn því snjórinn var meiri en verið hefur í lengri tíma. Bíllinn virðist vel einangraður og þar af leiðandi er veghljóð með lægsta móti og maður myndi þá segja að hann virkaði þéttur. Sest er nokkuð beint inn í hann, en samt örlítið niður. Það gæti verið verra fyrir þá sem nýlega hafa komið úr mjaðmaliðaskiptum eða eru slæmir í baki af einhverjum ástæðum. Þetta ætti því að vera pottþéttur bíll fyrir fjölskyldufólk sem kann vel að meta rýmið aftur í og rúmgott farangursrými. Það má troða endalaust í þetta.

Of vel búinn?

Bíllinn er vel búinn. Kannski of vel búinn? Það gæti verið því ríkulegur staðalbúnaður í grunngerð getur einmitt komið niður á verðinu, eins og eðlilegt hlýtur að teljast. Við viljum oft meira og meira en gleymum því að við þurfum að sjálfsögðu að borga fyrir það. Ekkert er ókeypis nema auðvitað almenn kurteisi, veðrið og annað í þeim dúr.

Ódýrasta útfærsla Nissan Pulsar er beinskipti bensínbíllinn sem er 115 hö og með 1200 vél. Hann kostar 3.550.000 kr. en sá dýrasti er á 4.050.000 kr. Skoðum aðeins staðalbúnaðinn í þeim ódýrasta. Það er, svo það helsta sé nefnt, LED ljós, upplýsingatölva með 5" litaskjá, Bluetooth, Nissan Connect-kerfi með 7" snertiskjá, íslensku leiðsögukerfi, tónlistarafspilun í gegnum bluetooth, samþættingu við snjallsímaöpp, Facebook og leitarkerfi Google o.fl., hraðastilli, hita í speglum og framsætum, birtuskynjara í aðalljósum, þokuljósum í stuðara, 6 hátalara, bakkmyndavél, regnskynjara og lykillaust aðgengi. Þetta er alls ekki allt en svona það helsta. Það verður að hafa í huga þegar verðið er skoðað. Áður en farið er í verðsamanburð við aðra bíla í sama flokki má þó skjóta því inn í að leiðsögukerfið er býsna gott og ánægjulegt að sjá hversu vel það virkar hér á landi og er nákvæmt. Nissan Connect-kerfið er mjög flott kerfi og alls ekki ætlunin að rakka gæði staðalbúnaðarins niður. Allt er þetta æðislega flott en bara spurning hvort þörf sé á öllu þessu eða hvort hægt hefði verið að draga aðeins úr og lækka verðið smá. Samkeppnin við Nissan Pulsar eru bílar á borð við Ford Focus, VW Golf, Mazda 3, KIA Ceed, Peugeot 308 og Toyota Auris. Þeir eru fleiri en þetta myndu vera þeir helstu. Ódýrastur þeirra er Mazda 3 og kostar hann frá 3.140.000 kr. Næstur kemur KIA Ceed sem kostar frá 3.240.777 kr., þá Ford Focus á 3.290.000 kr., Toyota Auris á 3.310.000 kr., VW Golf á 3.370.000 kr., Peugeot 308 á 3.390.000 kr. og lestina rekur Nissan Pulsar á 3.550.000 kr.

malin@mbl.is