Spáir mildu hausti en votviðri syðra

Þorkell Þorkelsson

Spá um veðurfar þriggja næstu mánaða, september til og með nóvember, gerir ráð fyrir því að fremur milt verði á landinu að jafnaði þennan tíma. Heldur rigningasamt um sunnanvert landið en úrkoma ekki fjarri meðallagi norðantil.

Þetta kemur fram í veðurpistli Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. „Ef þessi spá gengur eftir verður um að ræða ekki ólíkt veðurlag og tvö síðustu tvö haust,“ segir Einar. Tvö síðustu haust voru fremur rigningasöm sunnanlands og vestan. Sérstaklega var september í fyrra úrkomusamur og var þá um metúrkomu að ræða á sumum stöðum. Í Reykjavík rigndi 25 daga í september í fyrra og mældist úrkoman 174 millimetrar, sem var aðeins tveimur millimetrum undir úrkomumetinu frá árinu 1887.

Lægðagangur við landið

Veðurlagsspá frá Evrópsku reiknimiðstöðinni (ECMWF) er að þessu sinni óvenju skýr og sjálfri sér samkvæm, að sögn Einars. Spáð er háþrýstifráviki yfir Bretlandseyjum og fremur lágum loftþrýstingi suður og suðaustur af Hvarfi á Grænlandi. Slík þrýstifrávik séu ákveðin vísbending um lægðagang hér við land, ekki endilega syrpu djúpra lægða, en í það minnsta mun leið raka loftsins af Atlantshafi liggja nærri Íslandi.

„Þá rignir vitanlega talsvert og jafnvel mikið sunnanlands samfara vindáttum á milli SA og SV, en lengst af verður úrkomulítið norðan heiða,“ segir Einar. Það sé þó ekki að sjá að þar verði sérlega þurrt, enda sé það svo þegar lægðir verða nærgöngular að norðanvindur kemur fyrir með úrkomu einnig norðanlands. Einar segir að ef þessi spá rætist séu það góð tíðindi fyrir vatnsaflsvirkjanir í landinu eftir frekar snautlegt úrkomusumar. Þá fyllist öll uppistöðulón af ríkulegum haustrigningum.

„Verulegar líkur eru á því að hitinn á landinu öllu verði yfir meðallagi tímabilsins september til nóvember,“ segir Einar.

Stíga varlega til jarðar

Fram kemur hjá Einari að Breska veðurstofan sé búin að gefa út sína haustspá. Í henni sé stigið mjög varlega til jarðar eftir bommertu sumarsins, en góðviðrisspá fyrir júní til ágúst gekk engan veginn eftir. Á Bretlandi rigndi nefnilega nær látlaust í allt sumar. Nú segir veðurstofan breska að haustmánuðirnir verði aðeins hlýrri en í meðallagi á Bretlandseyjum og í N-Evrópu en ekkert sé hægt að segja um úrkomu.

„Þriggja mánaða veðurlagsspár gefa til kynna meðalveðurlag og innan þess rúmast talsverður breytileiki eins og gefur að skilja,“ útskýrir Einar. sisi@mbl.is


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert