Sagan fer í ferðalag

Rögnvaldur Guðmundsson formaður Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu (fimmti frá vinstri) …
Rögnvaldur Guðmundsson formaður Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu (fimmti frá vinstri) ásamt blaðamönnum frá Norðurlöndunum, Hermanni Bjarnasyni leiðsögumanni (annar frá vinstri) og Elísabetu Ward frá Víkingaheimum (önnur frá hægri). Ljósmynd/Frank Bradford

Samtök um sögutengda ferðaþjónustu  (SSF) hafa nú verið til í þrjú ár og í bæklingum samtakanna og á heimasíðunni www.soguslodir.is kynna sig nú um 30 aðilar allt í kringum landið sem vinna með söguna frá landnámi til siðaskipta, með áherslu á Íslendingasögurnar og arfleifð þeirra. Rögnvaldur Guðmundsson er formaður samtakanna og hann segir nú komið að því að markaðssetja þetta starf í samvinnu við ferðaþjónustuaðila, svo sem ferðaskrifstofur, þ.e. söguferðir um landið.

„Við fengum nýverið styrk frá Ferðamálastofu til að skipuleggja blaðamannaferðir til Íslands undir heitinu Sögueyjan Ísland. Voru farnar  þrjár ferðir með alls 20 blaðamenn á tímabilinu 26. ágúst til 13. september;  fyrst með Breta, síðan hóp frá Norðurlöndunum og loks Þjóðverja og Austurríkismenn,“ segir Rögnvaldur. „Við notuðum þetta tækifæri til að prufukeyra ferðir, og nú eru ferðaskrifstofur að byrja að selja svona ferðir, t.d. Terra Nova og Ferðaskrifstofan Ísafold, bæði fyrir hópa og fólk á eigin vegum og verður boðið upp á pakka af þessu tagi í vetur og næsta sumar.“

Samtök um sögutengda ferðaþjónustu tóku þátt í Vestnorden ferðakaupstefnunni í Kaupmannahöfn í síðustu viku til kynna sig. „Við höfum reyndar tekið þátt undanfarin ár, en núna erum við komin með einhverja „afurð“ sem við seljum þó ekki sjálf en aðrir eru að byrja að selja. Það hefur reyndar verið í umræðunni að samtökin gætu þróast út í ferðaskrifstofu þegar fram líða stundir vegna þess að þetta eru orðnir það margir félagar. Það yrði þá svipað og gerðist með Ferðaþjónustu bænda sem voru samtök gististaða en sem einnig stofnuðu sína eigin ferðaskrifstofu,“ segir Rögnvaldur.

Hann segist skynja mikinn áhuga á þessari sagnaslóðahugmynd enda hafa kannanir sýnt að yfir 80% af erlendum ferðamönnum hafi nokkurn eða mikinn áhuga á sögu og menningu Íslands og að um 40% nefna slíkt sem eina af ástæðum þess að Íslandsferð er ákveðin (Heimild: Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar). „Við finnum það að margar ferðaskrifstofur eru áhugasamar um að setja eitthvað þessu líkt inn í sínar ferðir um landi, t.d. ef leiðin liggur um Borgarfjörðinn að fara þá í Reykholt og fá leiðsögn með vönum manni eða ef farið er um Dalina að koma við á Eiríksstöðum og fá þar eitthvað til viðbótar, s.s. kjötsúpu og sögu við langeldinn. Viðleitnin er þannig að virðisauka þessar hefðbundnu ferðir um Ísland með því að tengja þær meira sögu og menningu í auknum mæli, ekki bara náttúrunni eða jarðsögu landsins sem er oft hefur verið ríkjandi þáttur í þessum ferðum. Það verður auðvitað mikilvægt áfram en nú við viljum reyna að koma sögunum, t.d. Íslandssögunum, betur til skila og sem víðast.

Síðan reynum við jafnframt að hvetja Íslendinga til að heimsækja söguslóðir. Þannig voru samtökin með auglýsingaherferð á Rás 2 síðastliðið sumar til að vekja athygli á okkar stöðum, bæklingum okkar og söguslóðaleik sem enn er í gangi og er útskýrður á heimasíðunni. “

Prufukeyrt með erlendum blaðamönnum

Rögnvaldur segir að „afurðin“, Söguslóðir á Íslandi, taki til alls landsins en ferðin sem prufukeyrð var með erlendu blaðamönnunum hafi farið um Suðvesturland, Vesturland, Norðurland vestra og hluta Suðurlands. „Við byrjuðum í Víkingaheimum í Reykjanesbæ, Landnámssetrinu í Borgarnesi og Reykholti og fórum þaðan til Eiríksstaða í Dölum, yfir á Grettissöguslóðir og  Sturluagaslóð í Húnaþingi og Skagafirði. Þaðan var farið yfir Kjöl, til Skálholts og til Þingvalla og loks skoðuðu menn sig um í söfnum og sögusýningum í höfuðborginni.“

Hann segir að það hafi í sjálfur sér verið tilviljun að ákveðið var að reyna nákvæmlega þennan hring en að honum loknum fengu blaðamennirnir spurningalista þar sem þeir voru spurðir hvernig ferðin hefði lukkast og ýmsir þættir í henni. „Svörin eru nú farin að berast og almennt má segja að ferðin sem slík fái mjög góða dóma hjá blaðamönnunum og jafnfram var almenn ánægja með fróða staðarleiðsögumenn sem flestir voru jafnframt góðir sögumenn. Þeim fannst þetta upplifun og nú eru að byrja að skila sér skrif þeirra í hinum ýmsu fjölmiðlum.“

Áhuginn er þannig ótvíræður, segir Rögnvaldur. „Ég held að menn átti sig á því að með þessu móti komist þeir svolítið nær þjóðinni sjálfri - í gegnum sögurnar og heyra fólkið sjálft segja sögur sinna svæða og Íslendingasögurnar sem þeim tengjast. Það er líka markmiðið í þessum ferðum að þær verði matarupplifun. Ferðamennirnir fái að bragða á staðbundnum mat, eins og við gerðum í blaðamannaferðunum. Þar fengu menn lunda úr Drangey í Skagafirðinum, Hólableikju og bláber með rjóma, og í Borgarfirðinum var t.d.  boðið upp á ís frá býlinu að Erpsstöðum í Dölum. En við erum ekkert að grafa undan Gullfoss-Geysis-ferðunum, því að það er auðvelt að fella þær inn í svona dagskrá.“

Rögnvaldur segir að vonast sé til að með þessu móti megi bjóða upp á fjölbreytta upplifun í söguferðunum. „Það eru auðvitað mjög margir hringir mögulegir og við höfum rætt möguleikann á samvinnu við ferðaskrifstofu á Austfjörðum - að byggja upp nokkurra daga ferð um Austurlandið og fara þá Hrafnkelssöguslóð, Vopnfirðingaslóð, í Skriðuklaustur, forna minjastaði og skoða sitthvað fleira. Þar er að vísu þyngra undir fæti því að þá þarf að fljúga austur og taka svo hringinn. Hið sama má hugsa sér á Vestfjörðum og víðar um land. Þetta er fyrir bragðið framtíðarmúsík en við höfum áhuga að búa til nokkuð margar hringleiðir á næstu einu til tveimur árum til að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið. Svo má fara í söguslóðaferðir allan ársins hring, því sagan fer ekki í vetrarfrí!”

Upphafið í Evrópuverkefni

Um Samtök um sögutengda ferðaþjónustu segir Rögnvaldur að þau hafi orðið til upp úr Evrópuverkefninu Destination Viking -Sagalands á árunum 2003 til 2005 og var styrkt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins með þátttöku margra aðila á norðurslóð - 6-7 staðir hér á landi, Brattahlíð á Grænlandi, L'Anse aux Meadows, á Nýfundnalandi í Kanada sem tengingu við Eirík rauða og Leif heppna, einnig Noregur, Færeyjar, Svíþjóð, Orkneyjar, Hjaltland og Mön. „Þessir aðilar frá Íslandi sem voru þátttakendur fóru upp úr þessa að tala sig saman og samtökin urðu til í framhaldinu vorið 2006 en það voru 18 aðilar sem stofnuðu þau og nú eru þeir orðnir yfir 60. Þar af eru um 40 staðir, svæði eða söguslóðir en auk þess eru ýmsar skólastofnanir og sérfræðingar með í samtökunum . Um  30 aðilar kynna sig í bæklingum okkar og fleiri koma þar inn á næstu misserum.“

Rögnvaldur segir áhuga innan samtakanna að færa þetta starf enn frekar út. „Við höfum verið í tengslum við handverkshópa er sinna fornu handverki,  en einnig við sagnamenn, með áherslu á að fá þá til liðs við að segja sögur á viðkomandi stöðum. Við höfum rekið okkur á að það er mikill áhugi fyrir sagnamönnum, því að jafnvel þótt með séu með leiðsögumenn  í ferðunum þá er greinilega eftirspurn eftir því að geta komið við á sumum stöðum og fengið þar dýpri fræðslu frá sögumanni eða sérhæfðum staðarleiðsögumanni.“

Hann bætir við að eftir samvinnuna við Færeyinga og Grænlendinga innan Evrópuverkefnisins sé nú áhuga að þróa frekari samvinnu við þessa granna okkar. „Við fengum nokkurn styrk til að bjóða Færeyingum og Grænlendingum hingað til viðræðna um svona samvinnu þannig að við getum setti staði frá þeim inn á okkar heimasíðu svo sem eins og Brattahlíð, Garða og Hvalsey í Grænlandi eða Götu, Toftanes og Þinganes í Færeyjum. Við höfum áhuga á því að fá flugfélögin sem þjóna þessum stöðum, þ.e. Flugfélag Íslands og Atlantic Airways,  til samstarfs til að tengja þessi svæði betur saman. Þetta er  liður í að þróa samtökin áfram, bæði að fá fleiri aðila hér innanlands, og tengja okkur við nágrannana hér í kring. Þá erum við í góðum tengslum við Norðurlöndin, Skotland og skosku eyjarnar svo dæmi sé tekið."

Framundan er nú markvisst markaðsstarf og liður í því er útgáfa á bæklingnum Söguslóðir á Íslandi á mörgum tungumálum. „Þetta hefur vakið athygli. Ég hef til dæmis farið nú í tvígang til Noregs til að kynna samtökin þar, og er núna í október að fara til Ítalíu í boði European Museum Forum sem eru með ráðstefnu á Sardiníu. Það var áhuga fyrir því að fá mig þangað til að segja frá samtökunum, hvernig þau eru byggð upp og hvernig þau hafa þróast. Mönnum þykir athyglisvert hvernig við höfum náð saman ólíkum aðilum til að vinna saman í svona samtökum.“

Sjá einnig http://soguslodir.is/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert