„Ætlar þú með?“

Þórunn Þórðardóttir fremst meðal jafningja fyrir flúðasiglinguna á Móðuránni í …
Þórunn Þórðardóttir fremst meðal jafningja fyrir flúðasiglinguna á Móðuránni í Bútan.

„Ætlar þú með?“ spurði leiðsögumaðurinn undrandi á svip þegar elsta manneskjan í hópnum, Þórunn Þórðardóttir, 83 ára, skellti sér í björgunarvesti fyrir flúðasiglingu á Mo Chu, eða Móðuránni, í Bútan. „Að sjálfsögðu,“ svaraði Þórunn að bragði. „Ég ætla ekki að missa af þessu."

Þetta hafði Þórunn ekki upplifað í annan tíma og segir siglinguna hafa verið heilmikið ævintýri sem tókst með ágætum. „Allir urðu töluvert blautir en mjög ánægðir,“ segir hún. 

Þegar Þórunn var í barnaskóla heima í Ögurvík við Ísafjarðardjúp á stríðsárunum þótti henni fátt skemmtilegra en landafræði. Hún lærði nöfn á löndum, borgum og ám af miklu kappi og horfði björtum augum út í hinn stóra heim; ekki síst til fjarlægra og framandi landa. Himalajafjöllin heilluðu hana sérstaklega og þangað dreymdi hana um að ferðast, meðal annars til hins landlukta konungsríkis Bútans.

 Á langri ævi hefur Þórunn ferðast ótrúlega víða; fljótlegra yrði líklega að telja upp löndin sem hún hefur ekki komið til en hin. Það var þó ekki fyrr en fyrir þremur árum að langþráður draumur rættist um að heimsækja Bútan, eða „Land þrumuguðsins“, eins og það merkir. Voru þá liðnir ríflega sjö áratugir frá því að hún virti þetta smáríki fyrst fyrir sér á landakortunum í barnaskólanum í fásinninu fyrir vestan.

„Ég hef farið víða um Asíu og þegar ferðaskrifstofan Vita auglýsti hópferð til Bútans árið 2016 lét ég mig ekki vanta á kynninguna. Daginn eftir var ég búin að borga farið,“ segir Þórunn.

Þórunn hefur ekki í annan tíma klifið fjall á hestbaki. …
Þórunn hefur ekki í annan tíma klifið fjall á hestbaki. Það var ógleymanlegt.


Óhætt er að fullyrða að Bútan sé ekki í alfaraleið, allra síst fyrir fólk á norðurslóðum, og Þórunn segir fyrirspurnum hafa rignt yfir sig, meðal annars frá skólasystrum sínum úr MR, en þær hittast alltaf einu sinni í mánuði. Hvers vegna Bútan?

„Svarið er svo sem ekkert flókið; ég hef alltaf haft áhuga á ólíkum löndum, menningu og lifnaðarháttum og þess vegna hef ég ferðast mikið á fjarlægum slóðum. Bútan fellur vel að þeim áhuga; ég held að Íslendingar viti almennt mjög lítið um þetta merkilega land,“ segir hún.

Þórunn er orðin 86 ára en er hvergi nærri hætt að ferðast; næsta ferðalag verður á Kjöl í sumar. Þegar spurt er um ný lönd sem hana langar að sækja heim stendur ekki á svari: „Tatsíkistan og Kírgistan. Ég hef mikinn áhuga á löndum í austurvegi. Evrópa er ágæt en ég hef meira yndi af því að koma til landa þar sem lífið gengur allt öðruvísi fyrir sig en hér. Á ferðalögum ætti maður aldrei að miða við sjálfan sig!“ 

Nánar er rætt við Þórunni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Búddalíkneskið stóra sem er á hæð suður af höfuðborginni Timfú.
Búddalíkneskið stóra sem er á hæð suður af höfuðborginni Timfú.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert