Þegar amma Brads Ryan sagði honum að hún hefði aldrei séð fjöll eða hafið vissi hann að hann þyrfti að gera eitthvað í því. Hann ákvað því að bjóða Joy, sem er á níræðisaldri, með sér í Great Smoky Mountain þjóðgarðinn.
Síðan þá hafa þau heimsótt 29 þjóðgarða Bandaríkjanna og stefna að því að heimsækja alla þjóðgarða Bandaríkjanna, sem eru 61 talsins, og þar með þá sem eru á Hawaii og í Alaska.
Joy hafði lifað einföldu lífi í Ohio, misst tvo af þremur sonum sínum unga að aldri og unnið láglaunastarf sem afgreiðsludama í matvöruverslun fram á níræðisaldur.
Brad segir í samtali við fréttastofu BBC að amma hans hafi sagt honum að hún sæi eftir því að hafa ekki séð meira af heiminum. Hann var sjálfur að ganga í gegnum erfitt tímabil í kjölfar sjálfsvígs skólafélaga síns og ákvað því að bjóða ömmu sinni með í fyrsta ferðalagið.
Ferðin til Great Smoky gekk svo vel að Brad ákvað að efna til hópfjármögnunar á vefsíðunni GoFundMe sem gerði þeim kleift að fara í mánaðarlangt ferðalag og heimsækja 21 þjóðgarð. Eins og fyrr segir hafa þau nú heimsótt 29 þjóðgarða og stefna á að sjá alla þjóðgarða Bandaríkjanna.
„Hún er mér svo mikill innblástur og hjálpaði mér að hægja á. Hún tekur eftir litlu hlutunum eins og litnum á sveppum á jörðinni,“ útskýrir Brad, sem deilir ferðasögum þeirra á samfélagsmiðlum.
Hann segir bestu gjöfina sem hægt er að gefa vera tíma, og að hann hafi fengið fjöldann allan af skilaboðum frá fólki sem segist óska þess að hafa eytt meiri tíma með ömmum sínum og öfum á meðan færi gafst.