Flugfarþegar eru yfirleitt beðnir um að setja farsíma og önnur snjalltæki í flugham þegar stigið er upp í flugvél. En hvað gerist ef einhver gleymir því? Getur flugvélin hrapað? Blaðamaður hjá norska dagblaðinu VG leitaði nýlega svara við spurningunni hvort það skipti í raun einhverju máli að hafa símann stilltan á flugham í flugi? Svarið var ótvírætt já. Samkvæmt starfsmanni Norsk Flygerforbund getur það haft mikið að segja fyrir flugöryggi flugvéla ef kveikt er á tækjum um borð sem senda og móttaka sendingar.
Ólíklegt er að flugvélar hrapi þó einhver sé með kveikt á síma um borð en hinsvegar geta símar sem ekki eru í flugham truflað tölvubúnað flugvéla, sérstaklega í lendingu, sem getur til dæmis valdið seinkun á flugi. Í lendingu stólar flugmaðurinn á sjálfstýringu vélarinnar og það mega ekki vera nein merki sem trufla búnaðinn. Ef einhver hefur gleymt að slökkva á símanum getur það í versta falli leitt til þess að flugmaðurinn getur ekki reitt sig á sjálfstýribúnað vélarinnar.
Í grein VG er einnig vitnað í starfsmann hjá Luftfartstilsynet í Noregi sem segir að engin dæmi séu þekkt þar sem símabúnaður hafi valdið alvarlegu tjóni í flugi. Flugfélögin ákveða sjálf hvort þau leyfi notkun síma og annarra tækja um borð en þau verða að sýna fram á að merki frá slíkum tækjum trufli ekki búnað flugvélarinnar. Það getur verið erfitt í eldri vélum en í framtíðinni verður notkun á þessum tækjum líklega leyfð því nýrri vélar gera ráð fyrir því að búnaður þeirra þoli snjalltækjanotkun um borð.