Bandaríska flugfélagið American Airlines hótaði að vísa konu frá borði á dögunum vegna þess að skilaboð á stuttermabol hennar voru talin móðgandi.
Konan, Swati Runi Goyal, var á leið frá Flórída til Las Vegas hinn 30. október síðastliðinn þegar bolur hennar með áletruninni „Hail Satan“ eða „Fögnum kölska“ vakti athygli flugþjóna í vélinni.
Hún segir tvo flugþjóna hafa orðið gríðarlega reiða og krafist þess að hún skipti um bol áður en vélin færi í loftið.
„Þetta er kaldhæðnislegur bolur. Fólki finnst hann vanalega fyndinn eða sendir mér þumal því það skilur skilaboðin á honum,“ sagði Goyal í viðtali við Buzzfeed News.
Goyal segist ekki vera djöfladýrkandi en tilheyrir satanísku musteri, sem leggur öll trúarbrögð og andsatanísk trúarsamtök að jöfnu.
Fluginu var seinkað á meðan þjónustufulltrúi hjá flugfélaginu kom um borð til að tryggja að Goyal skipti um föt áður en vélin færi í loftið. Loks fékk hún peysu hjá eiginmanni sínum til þess að fela skilaboðin.
Hún segist hafa verið niðurlægð, en var þakklát fyrir að aðrir farþegar í fluginu studdu hana og sögðu að sér fyndist bolurinn fyndinn.
Goyal kvartaði til flugvélagsins vegna atviksins og fékk stöðluð skilaboð til baka um að farþegar um borð í vélum American Airlines þyrftu að fylgja ákveðnum reglum.
Eftir að hún skrifaði um reynslu sína á Twitter hins vegar fékk hún þau svör að fordómar væru ekki liðnir hjá American Airlines. Í kjölfarið sagði talsmaður flugfélagsins að þau hefðu haft samband við Goyal til þess að biðjast afsökunar.