Satanískur bolur veldur uppþoti

Sataníski bolurinn var ekki leyfður um borð.
Sataníski bolurinn var ekki leyfður um borð. skjáskot

Bandaríska flugfélagið American Airlines hótaði að vísa konu frá borði á dögunum vegna þess að skilaboð á stuttermabol hennar voru talin móðgandi. 

Konan, Swati Runi Goyal, var á leið frá Flórída til Las Vegas hinn 30. október síðastliðinn þegar bolur hennar með áletruninni „Hail Satan“ eða „Fögnum kölska“ vakti athygli flugþjóna í vélinni. 

Hún segir tvo flugþjóna hafa orðið gríðarlega reiða og krafist þess að hún skipti um bol áður en vélin færi í loftið. 

„Þetta er kaldhæðnislegur bolur. Fólki finnst hann vanalega fyndinn eða sendir mér þumal því það skilur skilaboðin á honum,“ sagði Goyal í viðtali við Buzzfeed News

Goyal segist ekki vera djöfladýrkandi en tilheyrir satanísku musteri, sem leggur öll trúarbrögð og andsatanísk trúarsamtök að jöfnu. 

„Við héldum fyrst að þetta væri eitthvert grín, en svo endurtók hann fyrirmælin og það var annar flugþjónn á bak við hann með krosslagðar hendur grimmur á svip,“ sagði Goyal. 

Fluginu var seinkað á meðan þjónustufulltrúi hjá flugfélaginu kom um borð til að tryggja að Goyal skipti um föt áður en vélin færi í loftið. Loks fékk hún peysu hjá eiginmanni sínum til þess að fela skilaboðin. 

Hún segist hafa verið niðurlægð, en var þakklát fyrir að aðrir farþegar í fluginu studdu hana og sögðu að sér fyndist bolurinn fyndinn. 

Goyal kvartaði til flugvélagsins vegna atviksins og fékk stöðluð skilaboð til baka um að farþegar um borð í vélum American Airlines þyrftu að fylgja ákveðnum reglum. 

Eftir að hún skrifaði um reynslu sína á Twitter hins vegar fékk hún þau svör að fordómar væru ekki liðnir hjá American Airlines. Í kjölfarið sagði talsmaður flugfélagsins að þau hefðu haft samband við Goyal til þess að biðjast afsökunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert