Chloe Pantazi var í flugvél á leiðinni í langþráða ferð til Íslands þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um ferðabann sitt. Pantazi sem býr löglega í Bandaríkjunum og er gift Bandaríkjamanni leið eins og heimurinn væri að farast á ferðalaginu en hún lýsir upplifun sinni á því hvernig var að vera ferðamaður á Íslandi á þessum tíma á vef Insider.
Pantazi ætlaði að hitta vin frá Bretlandi á Íslandi. Pantazi segir í upphafi pistils síns að það hafi verið draumur að fara til Íslands síðan hún byrjaði að horfa á Game of Thrones. Hún lenti á Íslandi 12. mars síðastliðinn og hefði líklega getað verið heppnari með tímasetningu.
Allt ferðalagið var Pantazi að hugsa um hvernig hún kæmist heim. Hún bókaði strax önnur flug með millilendingu í Bretlandi aftur til New York, þar sem hún býr. Hún segist hafa skoðað símann sinn oft á dag og þegar nógu stutt var í ferðina reyndi hún að hringja í Icelandair. Degi áður en hún fór heim fékk hún skilaboð frá Icelandair þar sem hún fékk þær upplýsingar um að fluginu hennar hefði verið aflýst og búið væri að bóka hana í flug á annan flugvöll í New York.
Þrátt fyrir Pantazi hafi verið með hugann við heimferðina allan tímann náði hún að skoða landið. Hún segir að það hafi komið sér á óvart að skipulögðum ferðum hafi ekki verið aflýst. Hún komst í Bláa lónið og naut þess að vera þar með töluvert færri gestum en vanalega.
Á kvöldin voru hún og ferðafélagi hennar bara heima í stærri Airbnb-íbúð en þær borguðu fyrir og horfðu á raunveruleikasjónvarpsþátt á Netflix.
Þrátt fyrir allt var Pantazi ánægð með að vera á Íslandi þegar þetta gerðist og talar fallega um hvernig tekið var á kórónuveirunni á Íslandi. Var hún sérstaklega ánægð með aðgerðir alamannavarna og hversu snemma reynt var að hindra útbreiðslu veirunnar til þess að halda fólki öruggu.
„Ég fer líklega ekki aftur til Evrópu í þó nokkurn tíma og ég er glöð að ég fékk að verja nokkrum dögum með besta vini mínum í einu fallegasta landi í heimi,“ segir hún um ferð sína og segist hafa haldið sig fjarri fólki síðan hún kom heim úr ferðinni.