Norræna er væntanleg til Seyðisfjarðar í næstu viku. Gert er ráð fyrir að með henni komi ríflega 20 farþegar en þetta er í fyrsta skipti í mánuð sem farþegar verða um borð í ferjunni að því er fram kemur á vef Austurfrétta.
Stjórnendur Smyril-Line ákváðu að loka fyrir farþegaflutninga um miðjan mars til að stemma stigu við útbreiðslu covid-19-faraldursins og í ljósi landamæralokana danskra yfirvalda.
Þær lokanir eru enn í gildi og verða til 10. maí hið minnsta. Stjórnendur Smyril-Line hafa hins vegar ákveðið að taka upp farþegaflutninga nú en 10 dagar eru síðan smit greindist síðast í Færeyjum.
Norræna liggur nú við höfn í heimahöfn sinni í Þórshöfn og fer þaðan til Danmerkur í kvöld. Þaðan siglir ferjan á laugardag og stoppar í Færeyjum á mánudag áður en það heldur til Seyðisfjarðar á þriðjudagsmorgun.
Linda B. Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril-Line á Íslandi, segir í viðtali við Austurfrétt að 23 farþegar séu væntanlegir til Íslands í næstu viku. Allir eru á eigin vegum því engar hópferðir eru í gangi eins og er.