„Líkt og í krefjandi fjallgöngu er nú mikilvægt að sýna þrautseigju og dug og klára gönguna alla leið á tindinn,“ segir í tilkynningu frá Ferðafélagi Íslands (FÍ) sem hvetur alla til að fara í gönguferðir í sínu nærumhverfi undir yfirskriftinni „Almannavarnagöngur Ferðafélags Íslands.“
Félagið fór af stað með göngurnar í vor en hvetur nú sérstaklega til þeirra í kjölfar hertra aðgerða sem tóku gildi í gær. FÍ hefur nú frestað dagskrá fjalla- og hreyfiverkefnis félagsins frá 30. október í samræmi við hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins.
„Um leið er skipt yfir í heimaverkefni, gönguferðir í nærumhverfi og hvatningu á Facebook-síðum verkefna. Staðan verður svo endurmetin með hliðsjón af breytingum á þessum reglum. Eins eru ekki aðrar ferðir fyrirhugaðar á meðan þessar reglur gilda og allir skálar félagsins eru lokaðir.“
Almannavarnagöngur eiga að vera frá heimili hvers þátttakenda þar sem gengið er í nærumhverfinu, allar götur og gönguleiðir í nærumhverfinu þræddar, gengið á hvern hól og hæð og um leiðir sem viðkomandi hefur ekki gengið áður í nærumhverfinu eða gönguleiðir sem viðkomandi kann og þekkir.
„Gengið er með maka eða fjölskyldumeðlimum eða einn eftir atvikum. Fyrir, eftir eða á meðan göngunni stendur skal hringt í vin og sagt frá gönguferðinni og viðkomandi hvattur til að fara út að ganga. Enn betra er að hringja í vini sem þurfa sérstaklega á því að halda. Taka skal mynd í gönguferðinni og birta í Facebook hóp verkefnisins FÍ Almannavarnagöngur og merkja þær #ferdafelagislands. Eftir fjórar vikur verður dregið úr hópi þátttakenda sem sent hafa myndir úr göngunum og hljóta 5 heppnir göngugarpar glæsilega ferðavinninga með Ferðafélagi Íslands sumarið 2021.
Eins eiga almannavarnagöngur FÍ að minna fólk stöðugt á að við erum öll almannavarnir og fylgjum reglum um fjarlægð í samskiptum og notum bros og hlýju í stað handabands eða faðmlags og munum eftir öllum reglum um hreinlæti.“