Forsetahjón Bandaríkjanna, Joe og Jill Biden, gengu í hjónaband í júní árið 1977. Eftir brúðkaupið fóru þau í brúðkaupsferð en með í för voru synir Biden frá fyrra hjónabandi. Förinni var heitið til Evrópu eða Ungverjalands nánar tiltekið.
Biden var ekkill þegar hann kynntist núverandi eiginkonu sinni auk þess sem hann hafði misst eitt barn. Synir hans tveir, Beau og Hunter, fylgdu með honum þegar Jill giftist Biden að viðstöddum 40 manns í New York. Nýgiftu hjónin hefðu getað farið bara tvö saman í brúðkaupsferðalagið en það kom ekki til greina að sögn hjónanna á vef Vogue árið 2016. Þau voru öll fjögur að giftast, líka synirnir tveir.
Fjögurra manna fjölskyldan hélt því af stað til Ungverjalands. Þau völdu meðal annars að verja tíma við Balaton-vatn sem er þekktur sumarleyfisstaður í Ungverjalandi. Segir á vef BBC að Ungverjar séu stoltir yfir því að Biden kaus ferðamannasvæðið sem áfangastað í brúðkaupsferð sinni.