Stukku í Jöklu til að kæla sig

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Molluhiti er búinn að vera á Jökuldal í allan dag eða rúmlega 25 gráður á hitamæli veðurstofunnar á Brú á Jökuldal. Töluverður hópur af fólki notaði tækifærið og stökk í Jöklu þarna við brúna til að kæla sig og synda í ánni. 

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Það hefur mikil breyting orðið á Jöklu sem vall fram sem grámórautt forað fram að virkjun. Nú eftir virkjun líður hún fram í blátærri lygnu við brúna í hyl sem er allt að ellefu metra djúpur og skapar kjöraðstæður fyrir þá sem vilja stökkva í vatn til að kæla sig á góðviðrisdögum.

Leiða má líkur að því að þarna leynist bestu aðstæður á landinu til að iðka stökk í ferskt vatn um sumartímann.

Hægt er að velja hæð við hæfi hvers og eins af ótal klettastöllum sem eru þarna frá brúnni upp að gamla steinbogastæðinu, en þar var mannfær steinbogi yfir ána fram yfir söguöld.

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert