Hópurinn var stofnaður til að draga úr bílaveseni

Einar Skúlason stofnaði gönguhópinn Vesen og vergangar fyrir tíu árum. Gönguhópurinn var í upphafi stofnaður til þess að leysa bílavandamál sem geta skapast þegar fólk vill ganga frá A til B. Nú stendur Einar fyrir gönguhátíð í Reykjavík sem ætti að kveikja í þeim sem vilja hreyfa sig meira. 

„Ég hef alltaf haft sérstaka ánægju af því að ganga leiðir frá A til B, sérstaklega gamlar þjóðleiðir. Það er ákveðið umstang og vesen í kringum skutl á bílum til að fara slíkar leiðir og því fannst mér tilvalið að stofna hóp til þess að það væri hægt að panta rútu og deila kostnaði á hópinn. Af því að hópurinn var stofnaður til að draga úr bílaveseni, þá var upplagt að nefna hópinn Vesen og svo bættist vergangsnafnið við,“ segir Einar. 

Fyrsta ganga Vesens og verganga var farin um Leggjarbrjót þann 24. september 2011 og því fagnar gönguhópurinn tíu ára afmæli í næsta mánuði.  

„Markmiðið var að mynda samfélag til þess að auka hreyfingu og útiveru almennt og þar sem fólki væri velkomið að stofna til gönguferða og bjóða öðrum með. Smám saman stýrði eftirspurnin þróuninni í þá átt að bjóða upp á fleiri ferðir og einnig hreyfihópa eða svokallaða brölthópa sem ganga í hverri viku meirihluta ársins. Auk þess hafa verið alls kyns uppákomur eins og böll, fræðslukvöld, gönguhátíðir í Súðavík sjö ár í röð og nú gönguhátíð í Reykjavík og fjölmargt annað. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að það er enginn kjarni eða klíka í hópnum. Kjarni Vesens og vergangs eru þeir sem mættu í síðustu göngu.“

Hvað eru margir í þessum gönguhóp?

„Í hópnum á Facebook eru yfir 15 þúsund manns og það er greinilegt að mikill meirihluti þeirra fylgist vel með því sem er á seyði. Líklega koma um tvö þúsund manns í eina eða fleiri göngur á ári, en það er erfitt að meta það. Við höfum verið með yfir 300 viðburði í boði á ári.“

Oft er sagt að fólk á krossgötum í lífinu leiti í fjallgöngur. Tengir þú við það?

„Já, ég hugsa að það eigi við um marga. Oft er það þannig að tími skapast oft þegar fólk er á krossgötum í lífinu og þá finnst mörgum gott að leita út í náttúruna, skynja umhverfið og landslagið. Hreyfingin og hreina loftið gera mikið fyrir andlega og líkamlega líðan og svo má segja að félagsskapurinn sé svo rúsínan í pylsuendanum. Það myndast einhvers konar tengsl milli fólks sem gengur saman aftur og aftur, yfirstígur hindranir og deilir sameiginlegri reynslu í náttúrunni og stundum þróast það út í góða vináttu sem er nú með því dýrmætasta sem við getum vænst í lífinu.“

Hvað gera fjallgöngur fyrir þig?

„Líkamlega hreystin er auðvitað mikilvæg og þar hafa göngurnar mjög góð áhrif á allan líkamann, hvort sem litið er til þols eða styrks, en í mínu tilviki þá finnst mér jafnvel mikilvægari áhrifin sem göngurnar hafa á andlega líðan. Hvort sem það er stuttur göngutúr í hverfinu, fara á tind eða ganga með allt á bakinu í marga daga, þá jarðtengja þær mig og hafa róandi áhrif og auka gleðina í senn. Eins og ein í gönguhópnum sagði; þetta er djammið mitt. Maður fer út, hittir fólk, hreyfir sig og skemmtir sér og kemur svo heim og sofnar þreyttur og glaður í koddann.“

Áttu einhverja skemmtilega sögu til að rifja upp úr göngum hópsins?

„Já, fyrir nokkrum árum var hópur í vetrarprógrammi sem kallast Vesen og brölt. Margar af göngunum voru farnar í vetrarmyrkri og því fóru einstakir meðlimir í að skipuleggja það að ganga leiðirnar aftur í björtu. Smám saman tók hópurinn á sig mynd og kallaði sig að sjálfsögðu Afturgöngurnar og þar er gott vinasamband og hafa verið haldnar árshátíðir og farið í ferðir fyrir utan auðvitað allar afturgöngurnar sem hafa verið mjög margar. Ég held að allar Afturgöngurnar hafi mætt einar í upphafi en svo urðu þær að þéttum, sterkum og skemmtilegum vinahópi. Það var ótrúlega skemmtilegt að verða vitni að því og einnig að öllum hinum vinahópunum sem hafa myndast innan Vesens og vergangs á liðnum árum,“ segir Einar.  

Hér má sjá dagskrá Göngudaga í Reykjavík: 

Fimmtudagur 12. ágúst

08:00   Léttganga í Fossvogsdal í boði SÍBS

17:00   Smáþúfur á Lág-Esju í boði Vesens og vergangs

18:00   Söguganga: Grótta – miðborg Reykjavíkur í samstarfi við Sumarborgina

20:00   Léttganga í Laugardal í boði SÍBS

Föstudagur 13. ágúst

08:00   Léttganga í Elliðaárdal í boði SÍBS.

18:00   Laugardalur-miðborg í samstarfi við Sumarborgina

18:00   Mosfell í Mosfellsdal í boði Vesens og vergangs

20:00   Léttganga í Breiðholti í boði SÍBS

Laugardagur 14. ágúst

08:00   Léttganga í Öskjuhlíð í boði SÍBS.

11:00   Fræðslustígur hjá Nesjavallavirkjun í boði Orku náttúrunnar

12:00   Móskarðshnúkar, Laufskörð og Hátindur í boði Vesens og vergangs

13:00   Söguganga á Garðskaga í boði Suðurnesjabæjar

14:00   Selfjall og Sandfell.

14:00   Árbæjarsafn – miðborg í samstarfi við Sumarborgina

20:00   Léttganga í Grafarholti í boði SÍBS

Sunnudagur 15. ágúst

08:00   Léttganga í Grafarvogi í boði SÍBS

09:00   Vörðu-Skeggi í boði Orku náttúrunnar

12:00   Kópavogsdalur – miðborg í samstarfi við Sumarborgina

13:00   Söguganga: Sandgerðisviti – Garðskagaviti í boði Suðurnesjabæjar

20:00   Léttganga í Vesturbæ í boði SÍBS 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert