Aðeins 21 manneskja býr í bænum Doel í Belgíu og er bærinn þekktur sem draugabær landsins. Íbúar bæjarins vilja snúa þessari þróun við og gæða bæinn sinn lífi.
Íbúum hefur jafnt og þétt fækkað frá árinu 1970 þegar yfir þúsund manns bjuggu í bænum. Í dag stendur fjöldi húsa auður í bænum og fáir ganga um göturnar.
Doel stendur á milli sístækkandi hafnar Antwerpenborgar og kjarnorkuverksmiðju. Bærinn hefur orðið vinsæll áfangastaður forvitinna ferðamanna og fólks sem vill taka upp myndbönd í yfirgefnum og ógnvænlegum húsum. Hefur lögreglan þurft að fara í reglulegar ferðir í bæinn til að koma í veg fyrir skemmdarverk á auðu húsunum.
Íbúar Doel hafa trú á að þeim takist að gæða bæinn sinn lífi. Þar eru tvö kaffihús, annað þeirra við myllu frá 17. öld.
„Þetta er ekki draugabær. En ef þú kemur hingað á sunnudegi eða sérstklega á kvöldin, þá auðvitað sérðu öll auðu húsin,“ sagði Liese Stuer, íbúi í Doel, í viðtali við AFP. Henni finnst mikilvægt að fólk viti að fólk býr í bænum.
Stuer flutti til Doel fyrir fimm árum þegar hún eignaðist kærasta sem bjó þar. Áður hafði hún heimsótt bæinn sem barn.
Íbúum í Doel snarfækkaði á tíunda áratug síðustu aldar þegar belgísk stjórnvöld ákváðu að útrýma nokkrum þorpum í grennd við Antwerpen til að geta stækkað höfnina til muna. Höfnin er nú sú næststærsta í Evrópu. Flestir íbúar tóku sitt hafurtask og fóru þegar stjórnvöld réðust í aðgerðirnar en aðrir fóru með málin fyrir dómstóla.
Þá var fólki gert ómögulegt að flytja til Doel. Stjórnvöld í Belgíu féllu frá áformum sínum um meiri stækkun á höfninni árið 2016 eftir að Evrópudómstóllinn hafði metið það svo að aðgerðirnar ógnuðu umhverfinu og vistkerfi Scheldt-árinnar.