Á drekum norður ísbreiðu Grænlandsjökuls

Halldór á fleygiferð um ísbreiðuna.
Halldór á fleygiferð um ísbreiðuna. Ljósmynd/Höddi

Á sama tíma og tveir ís­lensk­ir göngu­skíðahóp­ar voru á ferð ann­ars veg­ar frá austri til vest­urs og hins veg­ar frá vest­ur til aust­urs yfir ís­breiðu Græn­lands, voru þeir Hösk­uld­ur Tryggva­son og Hall­dór Meyer á ann­ars­kon­ar ferð yfir jök­ul­inn. Leið þeirra var nokkuð lengri, eða sam­tals 1.800 km frá suðri og norður til Qa­ana­aq (sem áður var kallað Thule), en þeir notuðust við svo­kallaða dreka (e. kite) sem drógu þá áfram með aðstoð vinds­ins. Ýmis­legt kom upp á í ferðinni, svo sem erfitt færi og mik­ill kuldi, en auk þess brotnaði hluti af púlk­un­um sem þeir notuðust við, þeir misstu búnað og nauðsyn­leg lyf og þá brotnaði gikk­ur á byssu sem þeir höfðu meðferðis ef kæmi til þess að hvíta­björn yrði á vegi þeirra.

(f.v.) Halldór Meyer og Höskuldur Tryggvason hafa stundað drekasportið í …
(f.v.) Hall­dór Meyer og Hösk­uld­ur Tryggva­son hafa stundað dreka­sportið í nokk­ur ár sam­an, en þetta var lengsta ferðin þeirra hingað til. Ljós­mynd/​Höddi

„Ef hann gef­ur sig er bara „game over““

Fé­lag­arn­ir hafa und­an­far­in ár verið dug­leg­ir að ferðast um og leika sér á drek­un­um hér á Íslandi. Hösk­uld­ur, eða Höddi eins og hann er oft­ast kallaður, seg­ir í sam­tali við mbl.is að sjálf­ur hafi hann byrjað fyr­ir um 15 árum á sjódreka, en fyr­ir um sex árum hafi hann einnig farið að stunda það sama á snjón­um. Hug­mynd­in um þessa ferð og leiðar­val kom upp hjá þeim í kring­um síðustu ára­mót og seg­ir Hösk­uld­ur að í kjöl­farið hafi farið af stað mik­il skipu­lags­vinna. Það þurfi að vanda sér­stak­lega til verka með all­an búnað, sér­stak­lega grunn­búnaðinn sem er nauðsyn­leg­ur fyr­ir ferðina í heild. „Ef hann gef­ur sig er bara „game over“,“ seg­ir hann.

Á 30 km hraða yfir skafla sem virka eins og þvotta­bretti

Leiðin frá suðri til norður var val­in út frá veðurfari, en þarna er ríkj­andi suðaust­an vindátt að sögn Hösk­uld­ar. Hann tek­ur þó fram að ríkj­andi vindátt hafi ákveðna ókosti eins og svo­kallaða rifskafla sem lítið er um hér á Íslandi, alla­vega í sama mæli og þeir þurftu að glíma við á Græn­lands­jökli. Þess­ir skafl­ar mynd­ast þegar vind­ur­inn kem­ur lang­tím­um sam­an úr sömu átt og fara þeir að líkj­ast reglu­leg­um öldu­döl­um þar sem hver skafl er frá nokkr­um sentí­metr­um upp í yfir hálf­an metra á hæð. Hösk­uld­ur seg­ir best að lýsa þessu þannig að þegar þeir fari yfir lands­lagið á kannski 30 km/​klst hraða þá virki þess­ar öld­ur eins og þvotta­bretti sem flest­ir Íslend­ing­ar þekkja af ferðum um mal­ar­vegi og fjalla­slóða. Meira en helm­ing­ur þess­ara 1.800 km var þak­inn rifsköfl­um sem þess­um, en þó í mis­mikl­um mæli.

Rifskaflarnir eru frá nokkrum sentímetrum upp í hálfan metra á …
Rifskafl­arn­ir eru frá nokkr­um sentí­metr­um upp í hálf­an metra á hæð. Nokkra daga fóru þeir tugi og jafn­vel upp í yfir hundrað km nán­ast ein­göngu á svona ójöfn­um sem líkja má við að keyra yfir þvotta­bretti á mal­ar­veg­um. Ljós­mynd/​Höddi

„Frekar brútalt fyr­ir lík­amann

Þeir flugu til Kan­gerlussu­aq, sem er á vest­ur­strönd Græn­lands, nokkuð fyr­ir norðan Nuuk en sunn­an Diskóflóa. Þaðan var þeim svo flogið með þyrlu upp að gömlu rat­sjár­stöðinni DYE 2 sem Banda­ríkja­menn byggðu um miðja síðustu öld, en er ný yf­ir­gef­in. Hösk­uld­ur seg­ir að erfitt hefði verið að ganga upp á ís­breiðuna við Kan­gerlussu­aq og nota svo drek­ann til að kom­ast að DYE-2 stöðinni sem væri til suðaust­urs, en það væri á móti ríkj­andi vindátt. Við DYE 2-stöðina voru drek­arn­ir sett­ir á loft 5. maí og ferðin til norðurs hófst.

„Þess­ir skafl­ar eru þvert á leiðina og meiri­hluta leiðar­inn­ar þarf maður að glíma við þá,“ seg­ir Hösk­uld­ur. „Á 15 til 30 km hraða verður þetta frek­ar brútalt fyr­ir lík­amann, hné og læri. Þá er þetta líka slæmt fyr­ir búnaðinn og púlk­urn­ar og það var ým­is­legt sem leyst­ist nán­ast upp í ör­eind­ir,“ bæt­ir hann við.

DYE-2 ratsjárstöðin á Grænlandsjökli. Yfirgefin stöð sem Bandaríkjamenn reistu um …
DYE-2 rat­sjár­stöðin á Græn­lands­jökli. Yf­ir­gef­in stöð sem Banda­ríkja­menn reistu um miðja síðustu öld. Ljós­mynd/​Höddi

Misstu veru­leg­an hluta af eldsneyt­inu og brutu þrjár púlk­ur

Hvor um sig var með búnað og mat í tveim­ur púlk­um, um 80 kg sem þeir drógu. Til vara voru þeir með sitt hvora púlk­una og var það eins gott því sam­tals brotnuðu þrjár púlk­ur í ferðinni í öllu hnjask­inu. Þá seg­ir hann að mat­væl­in hafi að nokkru leyti orðið að hrærigraut í öllu skak­inu og hver ein­asta pilla sem þeir voru með í litla apó­tek­inu sínu hafi poppað úr ál­spjöld­un­um og í lok­in hafi þeir eig­in­lega bara verið með einn stór­an lyfja­kokteil í poka. Tveir af þrem­ur bens­ín­brús­um gáfu sig einnig í öllu hnjask­inu og misstu þeir þar með veru­leg­an hluta af eldsneyt­inu sem þeir komu með, en það er nauðsyn­legt til að bræða snjó og elda mat.

Þeir bundu tvær púlkur saman, auk þess sem ein aukapúlka …
Þeir bundu tvær púlk­ur sam­an, auk þess sem ein auka­púlka var auka­lega ofan í einni púlk­unni hjá hvor­um þeirra. Hér höfðu púlk­urn­ar farið á hvolf eft­ir eitt­hvað stökkið og eins og sjá má er sú sem er hægra meg­in á mynd­inni brot­in eft­ir hama­gang­inn. Ljós­mynd/​Höddi

„Svo var ég svo óhepp­inn í eitt skiptið þegar púlk­urn­ar höfðu farið á hvolf – sem gerðist reglu­lega þegar þær lenda ekki rétt í stökk­un­um – að einn renni­lás­inn á pok­an­um mín­um opnaðist. Ég tók ekki eft­ir því strax, en svo þegar það upp­götvaðist kom í ljós að ég hafði tapað tal­verðu af búnaði, t.d. hlýj­um lúff­um og eig­in­lega flest­um aukafatnaði. Þá var þetta bara farið,“ seg­ir Hösk­uld­ur.

Það var hins veg­ar ekki það verst því Hösk­uld­ur er með van­virk­an skjald­kirt­il og tek­ur við því töfl­ur. Með í þeim búnaði sem hann missti var ein­mitt skammt­ur­inn af þeim töfl­um í ferðinni. „Þegar maður tek­ur þær ekki má meðal ann­ars bú­ast við auk­inni þreytu og kulda­til­finn­ingu,“ seg­ir hann, en á leiðinni var alla jafna -30°C á nótt­unni og -20°C til -26°C á dag­inn. Þetta at­vik átti sér stað eft­ir um viku og þá voru enn eft­ir um 12 dag­ar þangað til hann komst á litlu heilsu­gæsl­una í Qa­ana­aq þar sem hann gat fengið slík­ar töfl­ur á ný.

Leiðin lengd­ist um 200 km

Bein leið frá upp­hafspunkt­in­um að Qa­ana­aq er um 1.600 km, en Hösk­uld­ur seg­ir að með dreka þurfi stund­um að laga stefnu að vindi og þá hafi þeir tals­vert reynt að leita betri leiðar í gegn­um rifskafl­ana, meðal ann­ars með því að leita hærra upp á jök­ul­inn, en al­mennt voru þeir í 2.000-2.500 metra hæð. Leiðin lengd­ist því sem nem­ur um 200 km.

Frá því að þeir yf­ir­gáfu rat­sjár­stöðina og þangað til þeir komust af ís­breiðunni upp af Qa­ana­aq seg­ir Hösk­uld­ur að það hafi ekki verið að finna eitt ein­asta kenni­leyti. „Við þurft­um nokkr­um sinn­um að ferðast í al­gjörri snjó­blindu þar sem okk­ar helsta áskor­un var að tapa ekki sjón­ar af hvor öðrum, en ann­ar var jú með tjaldið,“ seg­ir hann.

Leið þeirra Hödda og Halldórs frá DYE-2 stöðinni norðvestur að …
Leið þeirra Hödda og Hall­dórs frá DYE-2 stöðinni norðvest­ur að Qa­ana­aq. Kort/​mbl.is

Þegar um 50 km voru ófarn­ir niður af jökl­in­um slógu þeir upp tjald­búðum í al­gjörri snjó­blindu. Nokkru seinna dett­ur vind­ur­inn svo al­veg niður og fljót­lega rof­ar til. „Þá fáum við þessa æðis­legu sýn yfir fjörðinn og fjöll­in þarna,“ seg­ir Hösk­uld­ur. „Það var kær­komið að fá eitt­hvað að horfa á,“ bæt­ir hann hlægj­andi við.

Upp­haf­lega höfðu þeir áætlað að hægt væri að fara þessa leið á um 18-25 dög­um og því náðu þeir að klára leiðang­ur­inn í fyrra falli. Þeir höfðu hins veg­ar tekið ríf­lega af vist­um og voru með mat fyr­ir 30 daga enda bend­ir Hösk­uld­ur á að ferð sem þessi með dreka snú­ist öll um hag­stæðan vind og vind­leysi. Þannig hafi þeir í tvo daga nán­ast verið í al­gjöru logni og á slík­um dög­um hafi þeir jafn­vel ákveðið að lengja daga inn í nótt­ina eða vakna um miðja nótt til að leggja af stað áður en vind­ur­inn myndi al­veg detta niður.

Drekarnir sem þeir voru með voru frá 7 upp í …
Drek­arn­ir sem þeir voru með voru frá 7 upp í 18 fer­metr­ar að stærð, en not­ast er við mis­mun­andi stærðir eft­ir því hversu mik­ill vind­ur er. Drek­inn er tengd­ur niður í skíðamann­inn í gegn­um stýrið sem sést hér næst á mynd­inni. Ljós­mynd/​Höddi

Dýn­urn­ar gáfu sig og drek­ar rifnuðu

Þeir fé­lag­ar voru á ferðinni í 5-12 klst flesta daga að sögn Hösk­uld­ar, en til viðbót­ar við það fór mik­ill tími í að gera sig til­bú­inn í byrj­un dags, tjalda í lok dags og bræða snjó. Lít­ill tími var því fyr­ir eitt­hvað annað. „Við höfðum tekið spil með ef okk­ur færi að leiðast, en við náðum samt bara að spila tvisvar,“ seg­ir Hösk­uld­ur um frí­tím­ann í ferð sem þess­ari.

Eins og fyrr seg­ir varð tjón á allskon­ar búnaði í ferðinni. Hösk­uld­ur seg­ir að þeir hafi ákveðið að treysta á að skíðin myndu halda, en hins veg­ar hafi þeir tekið með auka bind­ing­ar ef þær myndu klikka. Ekki kom þó til þess, en af öðrum grunn­búnaði hafi þeir báðir lent í því að upp­blásn­ar svefn­dýn­ur sem þeir voru með hafi gefið sig. Báðar dýn­urn­ar voru með hátt ein­angr­un­ar­gildi og þurftu þeir á seinni hluta ferðar­inn­ar að láta sér nægja að út­búa aðra ein­angr­un und­ir sig til að ein­angra kulda jök­uls­ins frá sér á nótt­unni. Hösk­uld­ur seg­ir að þó hafi þeim tek­ist að laga aðra dýn­un þegar leið á og fékk Hösk­uld­ur, sem er sá kul­vís­ari, að njóta oft­ar góðs af því.

Félagarnir komu upp tjaldi á kvöldin og gistu í um …
Fé­lag­arn­ir komu upp tjaldi á kvöld­in og gistu í um -30°C kulda flest­ar næt­ur, en það var nokkuð kald­ara en þeir höfðu átt von á fyr­ir ferðina. Ljós­mynd/​Höddi

Þeir hafi jafn­framt lent í allskon­ar tjóni með drek­ana, bæði með slitn­ar lín­ur og rifna dreka sem þurfti að gera við. Báðir voru með nokkra auka dreka í mis­mun­andi stærðum, allt frá 7 fer­metr­um upp í 18 fer­metra, sem þeir skiptu út eft­ir því hversu sterk­ur vind­ur­inn var. 

Áttu von á -30°C, en þá sem und­an­tekn­ingu en ekki reglu

Kulda­stigið á Græn­lands­jökli meðan þeir voru þar var nokkuð kald­ara en þeir höfðu átt von á. Eins og fyrr seg­ir var það um -30°C á nótt­unni og -20°C til -26°C á dag­inn. „Við átt­um al­veg von á -30°C, en þá sem und­an­tekn­ingu en ekki reglu,“ seg­ir Hösk­uld­ur. Þeir hafi því verið nokkuð frost­bitn­ir í and­liti í lok ferðar og putt­arn­ir hafi jafn­framt verið orðnir nokkuð dofn­ir og til­finn­inga­laus­ir. Það helg­ist meðal ann­ars af því að þeir hafi oft þurft að vera í þunn­um hönsk­um þegar þeir voru að reyna að leysa úr línuflækj­um og öðru sem tengd­ist drek­un­um. „Við fund­um loks al­menni­lega aft­ur fyr­ir putt­un­um þegar við vor­um komn­ir í byggð á ný,“ seg­ir hann.

Þá hafi leiðang­ur­inn einnig tekið sinn toll á lík­am­an­um að öðru leiti en báðir hafi þeir léttst mikið á þess­um 18 dög­um. Það hafi gerst þrátt fyr­ir að þeir hafi borðað mikið og vel á morgn­ana og aft­ur á kvöld­in. „En svo voru þetta mjög lang­ir dag­ar á milli þar sem lít­ill tími gafst til að borða.“ Seg­ir Hösk­uld­ur að mik­ill tími geti farið í að ná drek­un­um niður og koma þeim á loft aft­ur. Þá kóln­ar manni einnig fljótt þegar stoppað er í þess­um kulda. Því hafi þeir aðallega verið að reyna að troða í sig Snickers-stykkj­um og nær­ingu sem var hægt að borða næst­um á ferðinni.

Á ferð yfir ísbreiðuna á 1.800 km ferðalaginu.
Á ferð yfir ís­breiðuna á 1.800 km ferðalag­inu. Ljós­mynd/​Höddi

Á ferðinni í 21 klst síðasta dag­inn

Sein­asti dag­ur­inn var svo lengsti dag­ur­inn, en þá fóru þeir á fæt­ur klukk­an tvö að nóttu og ferðuðust síðustu kíló­metr­ana eins langt og þeir gátu í átt að strand­lengj­unni. Þá tók við lang­ur kafli þar sem þeir þurftu að draga púlk­urn­ar yfir blöndu af snjó og mel­um og svo að lok­um að lækka sig um 400 metra niður af einu fjalli áður en þeir komust niður að sjáv­ar­máli. Þurftu þeir meðal ann­ars að af­tengja púlk­urn­ar og selflytja þær sem Hösk­uld­ur seg­ir að hafi verið mjög tíma­frekt.

„Við átt­um ekki von á því að það væru ís­birn­ir á ferð þar sem við kæm­um niður og það olli því nokkr­um óróa að rek­ast á ís­bjarn­ar­spor þegar við kom­um niður, vit­andi að riff­ill­inn var ónýt­ur. En við vor­um fegn­ir að bangsi lét ekki sjá sig,“ seg­ir hann, en gikk­ur­inn á riffl­in­um hafði skemmst á ferðalag­inu og voru þeir þar með skop­vopna­laus­ir á loka­dög­um ferðar­inn­ar. Þeir tjölduðu svo klukk­an ell­efu um kvöld, eða eft­ir 21 klst dag. Voru þeir svo sótt­ir morg­un­inn eft­ir, 23. maí og flutt­ir á snjósleðum til Qa­ana­aq, þaðan sem við tók 4-5 daga ferðalag til Íslands með sam­tals fjór­um flug­um.

Á daginn var hitastigið oft í kringum -20°C til -26°C …
Á dag­inn var hita­stigið oft í kring­um -20°C til -26°C og því nauðsyn­legt að reyna að verja sig sem best frá kuld­an­um. Ljós­mynd/​Höddi

Örugg­lega ekki sein­asti leiðang­ur­inn

Hösk­uld­ur seg­ir að þetta sé ör­ugg­lega ekki sein­asti leiðang­ur hans af þessu tagi, en hann sé þó ekki kom­inn svo langt að ákveða hvað taki við næst. „Núna er ég bara ánægður að kom­ast aft­ur í siðmenn­ing­una og í faðm fjöl­skyld­unn­ar,“ seg­ir hann eft­ir 18 daga á ísn­um. „Við vor­um báðir orðnir svo­lítið út­jaskaðir og þreytt­ir, en erum að kom­ast í form á ný,“ bæt­ir hann við.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert