„Það vill enginn vera í roki og rigningu“

Íslendingar flykkjast nú til heitari landa.
Íslendingar flykkjast nú til heitari landa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval Útsýn, segir að margir hafi bókað sér ferð í sólina eftir fregnir af vætusömu veðri á Íslandi í júlí.

„Við höfum alveg fundið fyrir því að fólk vilji fara sem fyrst frá landinu og það er mikil aðsókn í allar ferðir,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is.

Ekki er hægt að segja að það sé mikil sól í veðurkortunum næstu vikurnar. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði í fréttum í gær að útlit væri fyrir að lægðardrag yrði yfir eða í grennd við landið út júlí. Margir Íslendingar hafa hafa snúið vörn í sókn og bókað sér ferðir í sólina. 

„Næstu dagar eru næst því að vera uppseldir en við eigum laust í einhverjar ferðir í seinni hluta júlí. Það eru allir áfangastaðir vinsælir en við erum með bein flug til Alicante, Tenerife, Malaga, Krít, Almería og síðan er Veróna á Ítalíu mjög vinsæll áfangastaður. Ferðirnar renna út eins og heitar lummur. Við hjá Úrval Útsýn getum alltaf komið fólki úr landi, við finnum alltaf leiðir. Það vill enginn vera hérna í roki og rigningu,“ segir Þórunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert