Er þetta svalasta gisting landsins?

Nú er hægt að dvelja yfir nótt á Fjallsárlóni.
Nú er hægt að dvelja yfir nótt á Fjallsárlóni. Ljósmynd/Teitur Þorkelsson

Fjallsárlón Iceberg Boat Tours opnuðu nýlega fyrir möguleika á dvöl sérstökum húsbátum á Fjallsárlóni sem er svo hægt að nota sem sleða yfir vetrartímann. Eigandi fyrirtækisins Steinþór Arnarson segir hugmyndina hafa komið upp nýlega þegar þau veltu fyrir sér hvernig mætti skapa fleiri heilsársstörf hjá fyrirtækinu og fjölga afþreyingarmöguleikum yfir veturinn. 

Í viðtali við ferðavef mbl.is segir Steinþór að húsin hafa vakið mjög mikla athygli. „Fólk er mjög spennt og jákvætt fyrir þessu. Ég skil efasemdaraddir en ég held þær hljóðni fljótt þegar fólk sér hvernig þetta er útfært,“ segir Steinþór. Hann segir einn bátanna hafa staðið fyrir utan þjónustubygginguna um nokkurra mánaða skeið núna og að allir gestir hafi verið mjög áhugasamir. 

Umhverfisvænt og eykur afþreyingarmöguleika

Fjallsárlón er við sunnanverðan Vatnajökul á milli Öræfajökuls og Breiðamerkurjökuls. „Lónið á Fjallsárlóni frýs á veturna og þá er ekki hægt að sigla. Þetta er tímabil sem er kannski fimm mánuðir. Til að geta boðið upp á heilsársstörf og haft starfsfólk árið um kring er mikilvægt að vera með starfsemi sem er í gangi þegar lónið er frosið,“ segir Steinþór. 

Steinþór vonast til þess að koma stöðugleika á reksturinn yfir …
Steinþór vonast til þess að koma stöðugleika á reksturinn yfir veturinn með bátunum. Ljósmynd/Teitur Þorkelsson

Þegar hann sá hugmyndina um Igloo bátinn, sem er í senn bátur og sleði, ákvað hann að láta hugmyndina verða að veruleika og bjóða upp á lengri dvöl á lóninu og nýta húsin í sleðaferðir á lóninu yfir veturinn. Hann segir Igloo bátana mjög vandaða og umhverfisvæna, auk þess sem lítið fer fyrir þeim. 

„Igloo báturinn er í senn bátur og sleði. Þegar lónið er frosið er hægt að draga sleðann um lónið og bjóða upp á ferð. Hönnunin með gler til hliðanna og upp í himinn gerir þetta fullkomið fyrir norðurljósaferðir. Þar sem gott flot er í tækjum getur maður rólegur athafnað sig á frosnu lóninu. Á sumrin nýtist þetta einnig á vatninu sem bátur. Báturinn er með sólarsellur og notar líka etanól til að framleiða rafmagn og öllum mögulegum úrgangi er safnað í safntanka sem eru í bátnum,“ segir Steinþór.

Í sátt við umhverfið

Steinþór hefur rekið ferðaþjónustu við Fjallsárlón frá árinu 2013. Árið 2017 bættist við veitingastaður sem er rekinn samhliða bátaferðunum. Bjóða þau upp á tvennskonar ferðir, hefðbundna ferð um lónið og svo lúxusferð þar sem stoppað er á lítilli eyju. 

Hann segir mjög mikilvægt að allar framkvæmdir séu gerðar í sátt við umhverfið og því sé að mörgu að hyggja varðandi framkvæmd á stað eins og Fjallsárlón er. 

Fjallsárlón er við sunnanverðan Vatnajökul, milli Öræfajökuls og Breiðamerkurjökuls.
Fjallsárlón er við sunnanverðan Vatnajökul, milli Öræfajökuls og Breiðamerkurjökuls.

„Bátarnir sjást hvergi frá hefðbundnum útsýnisstöðum eða gönguleiðum. Fjallsárlón er mun stærra en margur ætlar og því þarf enginn að hafa áhyggjur af því að geta ekki smellt af mynd af lóninu og jöklinum án aukahluta. Báturinn er vandaður og það einfaldar málið en aðstæður á jökullóni eru sérstakar og sýna þarf sérstaka aðgát.“

Ævintýri yfir nótt

Ekki er hægt að dvelja yfir daginn í húsunum heldur fara ferðamenn með leiðsögumanni út á bát yfir í húsbátana. „Leiðsögumaður fer vel yfir virkni allra hluta í bátnum og gefur síðan gestum næði til að njóta þess að vera í þessum einstöku aðstæðum. Leiðsögumaðurinn er síðan í kallfæri ef gestir þarfnast nokkurs á meðan þau dvelja á staðnum. Þessu lýkur síðan að morgni þegar gestir eru sóttir og siglt til baka. Við köllum þetta Ævintýri yfir nótt á Fjallsárlóni,“ segir Steinþór.

Aðeins er hægt að dvelja yfir nótt í húsbátunum.
Aðeins er hægt að dvelja yfir nótt í húsbátunum.

Vonast til að koma stöðugleika á reksturinn

Steinþór segir að þeirra helsta von sé að gera reksturinn yfir veturinn stöðugri þegar engar siglingar eru á lóninu. Hann segir að yfir veturinn sé oft lítið aðsókn. 

„Hér getur verið býsna kalt á veturna í námunda við frosið lónið og jökulinn en með Igloo bátnum er hægt að bjóða upp á norðurljósaferðir eða njóta útsýnisins í hlýjum aðstæðum þótt úti blási kaldir norðan vindar,“ segir Steinþór. Hann bætir við að með meiri afþreyingu verði einfaldara að halda í leiðsögumenn allt árið og þau sleppi við að segja upp fólki yfir veturinn. 

„Þetta er bara frábær viðbót í flóruna á Íslandi, þessi bátar/sleðar eru mikið notaðir á Norðurlöndunum í norðurljósaferðum og ef við ætlum að halda áfram velgengni í ferðaþjónustu þarf að halda áfram að bæta og skapa og gera hlutina vel,“ segir Steinþór. 

Spurður hvernig bókunarstaða sé fyrir seinni hluta sumars segir hann að útlitið sé gott. Það sé ekki allt upp bókað, en að það sé gjarnar með siglingar að fólk bóki með skömmum fyrirvara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert