Hákon krónprins var vel búinn þegar hann fór í fjallgöngu með Guðna Th. Jóhannessyni forseta og fríðu föruneyti. Hann var í útivistarfötum frá toppi til táar og bar auk þess stóran bakpoka. Guðni var hins vegar þjóðlegur í skyrtu og ullarpeysu sem hann hefur áður sést í.
Stóri blái bakpokinn sem Hákon bar er frá þýska merkinu Ortovox og sat vel á mjöðmum prinsins. Hákon er vanur útivistarmaður og duglegur að skella sér á skíði í Noregi. Eftir því sem ferðavefur mbl.is kemst næst var Hákon einmitt með 40 lítra skíðapoka á bakinu.
Prinsinn virðist hafa verið við öllu búinn þar sem mikið var í bakpokanum. Ekki er vitað hvort Hákon hafi borið farangur Guðna forseta en Guðni Th. var ekki myndaður með bakpoka í göngunni. Guðni gæti líka verið meiri vasamaður en töskukall.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, gekk með þeim Hákoni og Guðna og bar töluvert minni bakpoka en norski prinsinn. Hún var með bakpoka frá 66°Norður sem er 15 lítrar.