Blaðamaðurinn og grallaraspóinn Nicholas Whitehead hefur ákveðið að gefast upp á rándýrum brandara sínum eftir 20 ár. Síðan 2002 hefur Whitehead greitt fyrir að hafa skilti upp í Wales sem gefur til kynna að alþjóðaflugvöllurinn Llandegley sé á næsta leiti, þrátt fyrir að enginn flugvöllur sé í næsta nágrenni.
Skiltið stendur rétt fyrir utan lítinn bæ að sama nafni og gefur til kynna að flugstöðvarbyggingar númer 1 og 3 séu í 2,5 milna fjarlægð. Á þessum 20 árum hefur Whitehead alls greitt um 25 þúsund pund fyrir að hafa skiltið uppi, eða um 4,2 milljónir króna.
Brandarinn kom fyrst til tals milli tveggja vina þegar þeir veltu fyrir sér að setja upp skilti um eitthvað sem væri ekki til. Þeir ákváðu svo að setja upp skilti um flugvöll.
Þetta grín hefur svo undið upp á sig á netinu og hafa þeir auglýst framkvæmdir á flugbraut 2, boðið upp á þykjustu flugnámskeið og nýlegast gagrýnt að rússneskar einkaþotur hafi lent á vellinum án leyfi, og að farþegarnir hafi komist í burtu á hjólum.
Whitehead hefur nú gefist upp á þessu ansi kostnaðarsama gríni en vonast til þess að stjórnin í Wales haldi gríninu gangandi og greiði fyrir veru skiltisins.
„Ég held að þessi flugvöllur sé kominn á kortið núna, og tel að hið opinbera ætti að taka við verkefninu,“ sagði hann í viðtali við BBC South Wales.
Þó skiltið verði tekið í burtu segir hann að flugvöllurinn muni lifa áfram.
„Skiltið er bara skilti. Það er hægt að taka skiltið í burtu, en flugvöllurinn verður áfram þarna. Flugvöllurinn verður alltaf til á sama hátt og lag er alltaf til,“ sagði Whitehead.