Bestu eyjarnar til að heimsækja 2023

Ljósmynd/Pexels/Tommes Frites

Eyjur eru vinsælir áfangastaðir fyrir þá sem vilja svala ferðaþránni og upplifa um leið töfrandi strendur, framandi menningu og fyrsta flokks afslöppun við hafið. Eyjarnar eru jafn margar og þær eru fjölbreyttar og því ættu allir að geta fundið eyju við hæfi.

Til að einfalda valið hafði ferðavefur Condé Nast Traveller samband við ferðasérfræðinga hvaðanæva að úr heiminum sem starfa við það að ferðast og spurðu út í bestu eyjarnar til að heimsækja í ár. Útkoman er listi yfir spennandi eyjar sem allar hafa sinn sjarma. 

Can Dao í Víetnam

Can Dao er lítil eyja staðsett við suðurströnd Víetnam. Eyjan er frábrugðin öðrum áfangastöðum í Víetnam, en þar er andrúmsloftið rólegt, strendurnar langar með mjúkum sandi og krúttlegir veitingastaðir á hverju horni. 

Á eyjunni er nóg af afþreyingu. Ýmislegt er þar hægt að gera, allt frá því að snorkla um falleg rif og fara í kajaksiglingar yfir í ævintýraferð á nágrannaeyju til að fylgjast með skjaldbökum klekjast út. Fyrir söguunnendur er mælt með heimsókn í Con Dao fangelsið.

Ljósmynd/Pexels/Ben

Lanaí á Havaí

Ferðalangar í leit að ótroðnum slóðum þurfa ekki að leita lengra en til Lanaí, minnstu byggðu eyju Havaí. Upphaflega var eyjan notuð undir ræktun á ananas, en nú býður hún upp á fullkomna blöndu af ævintýrum og slökun. 

Það að koma til eyjunnar þykir mikil upplifun í sjálfu sér, en þegar komið er á eyjuna er hægt að skoða hana með báti, á jeppum eða á hestbaki. Í borginni sjálfri eru aðeins þrjár malbikaðar götur og engin umferðarljós. 

Ljósmynd/Unsplash/Dorota Kowalska

Máritíus

Máritíus er staðsett í Indlandshafi og þykir frábær áfangastaður fyrir ferðalanga á öllum aldri sem eru í leit að fallegu landslagi og suðrænni veðráttu.

Rifið sem umlykur megnið af eyjunni býður upp á fullkomin skilyrði til að synda og snorkla beint frá ströndinni. Á vesturströndinni eru bestu vatnsskilyrðin, en þar fá ferðalangar einnig að upplifa töfrandi sólsetur.

Ljósmynd/Unsplash/Xavier Coiffic

Majorka á Spáni

Baleareyjar eru með vinsælustu ferðamannastöðum Evrópu. Majorka, sem er þriðja stærsta eyja Spánar, þykir eftirsóknarverður áfangastaður enda mætast þar falleg náttúra, merkileg saga og menning. 

Á eyjunni er fjölbreytt afþreying í boði og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Á norðvesturhluta eyjunnar finnur þú Serra de Tramuntana svæðið, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Í nágrenni við svæðið eru einnig nokkur af fallegustu þorpum Majorka staðsett. 

Ljósmynd/Unsplash/Alejandra Cifre González

Koh Samui á Taílandi

Það er einfaldlega ekki hægt að fara til Taílands án þess að dvelja á einni af eyjum landsins, enda státa þær af nokkrum af fallegustu ströndum heims. Koh Samui þykir sérlega heillandi eyja enda býður hún upp á blöndu af fallegum ströndum, úrvali af glæsilegri gistingu og skemmtilegri afþreyingu. 

Þá þykir ómissandi að fara í siglingu um Koh Samui og nærliggjandi eyjar, og ekki er verra að njóta sólsetursins í leiðinni. 

Ljósmynd/Unsplash/Norbert Braun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert