Hvenær er í lagi nota hnappinn fyrir ofan sætið í flugi?

Unsplash/Gerrie van der Walt

Allir flugfarþegar kannast við að finna fyrir þorsta, svengd eða verið með rusl til að henda. Freistandi er að ýta á hnappinn fyrir ofan sætið, sem sendir til þín vingjarnlegan áhafnarmeðlim til að leysa vandamál þín. En hvenær er það óviðeigandi að hringja eftir aðstoð flugfreyjunnar?

Samkvæmt flestum flugfreyjum er ákveðið þegjandi samkomulag um hnappana sem tekur mið af því hvenær í fluginu hann er notaður, hvar farþeginn situr og hver beiðnin er. Öryggið er augljóslega alltaf í fyrirrúmi. Ef þú verður var/vör við eitthvað óvenjulegt, læknisfræðilegt neyðartilvik eða að ástandið virðist óstöðugt, skaltu ýta á hnappinn án þess að hugsa þig tvisvar um.

Condé Nast Traveller spurði nokkrar flugfreyjur hvenær það er viðeigandi að ýta á aðstoðarhnappinn og hvenær ekki.

Haltu þig frá hnappinum við flugtak, lendingu og á meðan vélin keyrir til og frá flugstöðinni

Ef þú íhugar að ýta á hnappinn þegar flugvélin brunar eftir flugbrautinni rétt fyrir flugtak til að biðja um gosdós, skaltu búa þig undir starandi augnaráð og skammir frá áhafnarmeðlimum. Á þessum tíma er ekki í lagi að ýta á hnappinn nema í algjörum neyðartilfellum.

Ruslið getur beðið

Flestar flugfreyjur svara kallinu með ánægju þegar vélin er komin í hámarksflughæð, með einni undantekningu. Þolinmæði flestra er lítil þegar kemur að ruslahreinsun. Að sögn einnar flugfreyjunnar er ekkert flugfélag með ruslatunnu á veitingavagninum, svo ekki biðja áhafnarmeðlimi um að taka ruslið þegar veitingar eru bornar fram.

Og alls ekki ýta á hnappinn til að biðja um að taka ruslið þitt. Áhafnarmeðlimir ganga reglulega um vélina til að safna rusli og eru þá með ruslapoka og hanska. Gott er að hugsa með sér að ef þú myndir ekki snerta viðkomandi rusl með eigin höndum ef það kæmi frá öðrum þá skaltu ekki biðja áhafnarmeðlimi um að koma hanskalausa að ná í það.

Fer eftir því hvar þú situr

Á meðal sumra áhafnarmeðlima fer það eftir því hvar þú situr hversu sterkur réttur þinn til að hringja eftir aðstoð er. Ein flugfreyja segir að ef flugþjónustunni sé lokið og farþeginn sitji við gluggann eða í miðsætinu megi þeir ýta á hnappinn hvenær sem er. Ef þú situr í gangsætinu er þér hins vegar velkomið að koma aftast og biðja um það sem þú þarft.

Það á hins vegar ekki við þegar flugþjónustan er í gangi. Að kalla eftir flugfreyju og biðja um eitthvað léttvægt á meðan á henni stendur er stranglega bannað, nema um neyðartilfelli sé að ræða.

Eitt að lokum: Ekki snerta áhafnarmeðlimi

Það er alltaf betri hugmynd að ýta á hnappinn en að snerta áhafnarmeðlim ef þig vantar aðstoð. Hnappurinn er þarna af góðri og gildri ástæðu. Alls ekki snerta flugfreyjurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert