Heildarneysla ferðamanna hér á landi, innlendra sem erlendra, nam 647 milljörðum króna árið 2022 og jókst um 80% samanborið við 2021. Heildarneysla hefur því aldrei verið hærri, en fyrir kórónuveirufaraldurinn nam hún mest 572 milljörðum, árið 2018.
Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga Hagstofu Íslands en þar segir jafnframt að hafa beri í huga að upphæðir séu á verðlagi hvers árs og gætir því einhverra áhrifa verðbólgu, en hún nam að meðaltali 8,3% árið 2022.
Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar hérlendis. Ferðaþjónustureikningar taka til útgjalda innlendra sem og erlendra ferðamanna á Íslandi.
Útgjöld innlendra ferðamanna námu tæplega 245 milljörðum króna árið 2022, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum en jukust um rúm 59% samanborið við árið 2021.
Útgjöld innlendra ferðamanna námu því 38% af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2022, samanborið við 43% árið 2021, 48% árið 2020 og 27% árið 2019. Ferðaskrifstofur vega þyngst í útgjöldum innlendra ferðamanna á árinu 2022, sem er frávik frá niðurstöðum fyrir árin 2020 og 2021, en þó í takt við vægi útgjalda á árunum 2016-2019.
Útgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu rúmlega 390 milljörðum króna árið 2022 og jukust um 107% borið saman við árið 2021 en voru á pari við útgjöld þeirra hér á landi árin 2018 og 2019. Útgjöld erlendra ferðamanna námu rúmlega 60% af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2022. Gistiþjónusta vegur þyngst í útgjöldum erlendra ferðamanna en gistinóttum þeirra fjölgaði um 96% frá fyrra ári.
Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2022 nam 7,8% samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum. Til samanburðar var hlutur í landsframleiðslu um 4,8% árið 2021 en á tímabilinu 2016 til 2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn, nam hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu að jafnaði 8,2%.
Mælt í heildarfjölda vinnustunda er áætlað að 8,3% vinnustunda hér á landi á árinu 2022 hafi tengst beint framleiðslu á vöru eða þjónustu til endanlegra nota fyrir ferðamenn. Til samanburðar var þetta hlutfall 6,3% árið 2021 en 9,6% að meðaltali á árunum 2016-2019.
Áætlaður fjöldi vinnustunda við ferðaþjónustu á árinu 2022 eru 25,4 milljónir sem er fjölgun um tæp 42% frá fyrra ári. Áætlað er að rúmlega 18 þúsund einstaklingar hafi starfað við ferðaþjónustu hér á landi á árinu 2022 sem er fjölgun um rúmlega 37,5% frá árinu 2021.
Fjölgun vinnustunda frá fyrra ári er því áætluð meiri en sem nemur fjölgun starfa á sama tímabili.