Kate Mosse er breskur rithöfundur sem elskar að vera á Kanaríeyjum. Hún er hokin reynslu hvað eyjarnar varða og finnst mest til Las Palmas koma.
„Agatha Christie varði miklum tíma í Las Palmas. Þá var hún að flýja breska vetrarkuldann, jafna sig á ástarsorg eftir að maðurinn hennar fór frá henni og móðir hennar lést. Hún skrifaði nokkrar smásögur þar en var líka að svamla í sjónum á brimbretti á Playa de Las Canteras,“ segir Mosse í viðtali við The Times.
„Um það bil sextíu árum síðar ákveð ég svo að feta í hennar fótspor í leit að innblæstri og fann hann svo sannarlega. Frá þeirri stundu var ég heilluð. Þetta svæði dettur inn og út úr tísku en ég er alltaf jafn ánægð. Það er auðvelt að fá flug þangað, eldfjallalandslagið er einstakt og endalausar strendur, hellar og mikill gróður.“
„Fyrst fór ég til Lanzarote en mér fannst aðeins of mikill gustur þar. Svo fór ég til Tenerife en það voru of mikil læti í fólkinu þar og umstang. Ég er týpan sem vill fara að sofa snemma og vera fersk á morgnana. Ég endaði þess vegna á Grand Canaria sem virtist enn vera á valdi innfæddra. Þarna dvel ég reglulega, stundum með fjölskyldu eða vinum og stundum bara ein. Mér finnst best að vera í Las Palmas á hinu fallega hóteli Hotel Santa Catalina sem var byggt á 19. öld og hefur marmaragólf og fallegar útskornar svalir.“
„Ég elska að sitja á verönd á Pier 19 og svo rölti ég um bryggjuna. Uppáhaldsveitingastaðurinn minn er svo vel falinn í skuggalegri hliðargötu í Triana, á milli Ciudad Jardin og gamla bæjarins Vegueta. Þar eru bara innfæddir að drekka rótsterkt kaffi eða vín á hvaða tímum dags sem er.“