Ferðamynstur Íslendinga er að breytast. Landsmenn bóka nú utanlandsferðir með skemmri fyrirvara og fara í fleiri en eina ferð yfir sumarið.
Þetta er mat Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra Úrvals Útsýns.
Þórunn segir sumarið hjá Úrval Útsýn hafa gengið vel. Þau hafi þó verið svartsýn í byrjun sumars vegna þessa breytta ferðamynsturs.
„Það hefur gengið fram úr vonum. Við vorum svolítið svartsýn í byrjun vegna breytts ferðamynsturs Íslendinga. Þeir stökkva orðið bara með engum fyrirvara og fara í fleiri en eina ferð,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is.
Aðspurð segist hún hafa byrjað að taka eftir þessari þróun eftir Covid-19 tímabilið.
Spurð hvort fleiri séu að ferðast í sumar miðað við síðasta sumar segist Þórunn ekki vera komin með lokatölur fyrir sumarið. Hún bendir þó á að fjölskyldufólk sé minna að ferðast eftir heimsfaraldurinn.
„Það sem við verðum meira vör við er að það er hægari gangur í fjölskyldum að ferðast. Við finnum svolítið fyrir því. Þar gæti efnahagurinn spilað inn í eða þá bara að þau fara hægar af stað í ferðalögin með stórfjölskylduna.“
Þórunn segir vinsælustu staðina hjá Úrval Útsýn í sumar hafa verið Gardavatnið, Almería, Krít og svæðið í kringum Alicante. Þá standi Tenerife alltaf fyrir sínu.
„Tenerife er alltaf vinsæll en hinir staðirnir sækja í sig.“
Hún segir fólk strax byrjað að bóka borgarferðir í haust.
„Það er varla búið að klára bóka sumarfríið þegar það byrjar að horfa á borgarferðirnar í haust.“
Miklar hitabylgjur hafa geisað á meginlandi Evrópu í sumar. Að sögn Þórunnar hefur Úrval Útsýn ekki verið með ferðir á þau svæði þar sem allra heitast hefur verið. Því hafi fólk ekki verið að afbóka eða fresta útlandaferðum sínum. Þá segir hún Íslendinga orðna ferðavana og þeir passi upp á sig í hitanum.
„Ég held að fólk sé orðið ferðavant. Það passar að fá sér gistingu með kælingu og er ekki úti þegar heitast er,“ segir Þórunn.