Stífluð klósett, enginn klósettpappír, viðbjóðsleg lykt, rusl á jörðinni og löng röð til þess að greiða aðstöðugjald. Þetta meðal annars er það sem einkennir ferðir sumra í Landmannalaugar á sunnanverðu hálendinu.
Um helgina fór Kristvin Guðmundsson í ferð með fjölskyldu sinni í Landmannalaugar og ætlaði sér að eiga þar notalega stund. Segir hann hins vegar að honum hafi brugðið þegar hann sá umgengnina á svæðinu.
„Þetta leit bara skelfilega illa út, það voru stífluð klósett, ógeðsleg lykt, þrifunum ábótavant og annað,“ segir Kristvin í samtali við mbl.is.
„Manni ofbauð á þessum stað sem á að heita paradís hálendisins.“
Kristvin er ljósmyndari, starfaði hann meðal hjá mbl.is um hríð, en auk þess er hann leiðsögumaður. „Maður er alltaf að segja við ferðamennina að Ísland sé svo hreint, en svo stoppar maður á ýmsum stöðum og hugsar: „Úff, ég vona að þetta sé í lagi.“,“ segir hann.
Hann segist hafa látið starfsfólk við Landmannalaugar vita af umgengninni en fengið ófullnægjandi svör. Aðspurður segist hann ekki hafa tekið myndir af ástandinu, enda hafi honum verið illa við að taka ljósmyndir í sturtuaðstöðu þar sem fólk stóð á baðfötum.
Bendir hann á að Landmannalaugar séu alls ekki eini staðurinn þar sem umgengnin er afar slæm. Til dæmis hafi hann einnig tekið eftir svipaðri umgengni í þjóðgarðinum á Þingvöllum. „Á þessum stöðum sem ferðamennirnir koma er þetta skelfilegt. Sumir eru ekkert slæmir en aðrir alveg hrikalegir.“
„Mér hreinlega ofbauð þegar maður fór með barnið að skipta um föt inni í skálanum þar sem salernin og sturtur eru og já, [ég] borgaði fyrir það,“ skrifar Kristvin í færslu á fésabókarhópinn Bakland Ferðaþjónustunnar þar sem hann sagði frá reynslu sinni í kjölfar fýluferðarinnar. „Minnti nánast á útikamar á Uxa 95,“ skrifar Kristvin.
Nokkrir tóku undir orð Kristvins í ummælum, þar á meðal Halldór Sveinsson, sem skrifar að hann hafi beðið í tæpan hálftíma í röð til að greiða aðstöðugjald. Þegar hann benti síðan starfsmanni á biðina hafi hann fengið ófullnægjandi svör. „Ég var þarna fyrir 2 vikum, þá voru 4 klósett stífluð, vantaði pappír á minnsta kosti 2 önnur.“
Blaðamaður náði tali af Halldóri, sem segir í samtali við mbl.is að hann hafi farið í Landmannalaugar í fyrsta skiptið í nokkur ár og orðið vonsvikinn þegar hann sá umgengnina og hafi hún verið gjörólík þeirri sem var þar áður. „Mér fannst þetta bara vera sóðalegt.“
„Þetta er bara subbulegt og það er verið að rukka fyrir þetta,“ segir Halldór og bætir við að aðstöðugjaldið við Landmannalaugar sé 500 krónur á haus.
Annar skrifar undir færslu Kristvins: „Ég fór í Landmannalaugar fyrir mánuði síðan og hef sömu sögu að segja, því miður. Greiddi aðstöðugjald og það voru örfá klósett sem voru í lagi og hvergi hægt að fá klósettpappír. Verulega sorglegt.“