Birta Eik F. Óskarsdóttir birti á dögunum myndskeið á TikTok þar sem hún sýndi frá matarinnkaupum sínum á Tenerife. Hún gerði verðsamanburð á sambærilegum matarinnkaupum í lágvöruverslun hér á Íslandi og komst að því að matarkarfan er meira en helmingi dýrari á Íslandi.
Birta Eik er eigandi fyrirtækisins Eik hönnun og er búsett á Tenerife. Hún er dugleg að gefa fylgjendum sínum á TikTok innsýn í lífið í sólinni og segist í myndskeiðinu oft vera spurð að því hvort það sé ekki ódýrara að búa á Tenerife. Því hafi hún ákveðið að sýna frá matarinnkaupum sínum í versluninni Marcedona.
Í matarkörfu Birtu má finna ýmislegt, þar á meðal nautahakk, kjötbollur, egg, osta, mjólk, avókadó, ber og chia-fræ svo eitthvað sé nefnt.
Fyrir matarkörfuna borgaði Birta rúmar 85 evrur sem nemur rúmum 12.600 krónum á gengi dagsins í dag. Hún bar innkaupin saman við sambærileg matarinnkaup í lágvöruverslun á Íslandi en þar hafi matarkarfan verið meira en helmingi dýrari og kostað rúmar 27 þúsund krónur, eða rúmlega 14.400 krónum meira en karfa Birtu á Tenerife.