Lonely Planet mælir með þremur íslenskum stöðum

Hefur þú heimsótt þessa staði?
Hefur þú heimsótt þessa staði? Ljósmynd/Unsplash/Miha Rekar

Ferðavefur Lonley Planet birti á dögunum þrjá staði sem vert er að heimsækja á Íslandi fyrir ferðalanga sem vilja ferðast eins og heimamenn. Hringvegurinn, Reynisfjara og Bláa lónið standa alltaf fyrir sínu, en með greininni vildu þau vekja athygli á hve margt annað landið hefur upp á að bjóða. 

Greinina skrifuðu þrír ferðasérfræðingar, en hver sérfræðingur valdi einn stað til að mæla með. Carolyn Bain, ferðabókahöfundur, valdi Hrísey á Norðurlandi. 

Hrísey

„Litla eyjan Hrísey er í 15 mínútna fjarlægð frá Árskógssandi með ferju en hún er langt í burtu frá ysnum á Hringveginum. Ferjan ber ekki bíla; við bryggju eyjunnar eru hjólbörur svo ferðalangar geti flutt farangur sinn. Í nágrenninu er röð af dráttarvélum sem er ákjósanlegur ferðamáti eyjunnar,“ skrifar Bain. 

„Ég kem hingað fyrir kyrrðina, fuglalífið (rjúpur, kríur, máva og endur), gönguleiðirnar og útsýnið. Hrísey situr í miðjunni á löngum fjallagarði með stórkostlegu útsýni til allra átta,“ bætir hún við og segir það vera vel þess virði að heimsækja eyjuna hvenær sem er árs. 

Hrísey er í Eyjafirði.
Hrísey er í Eyjafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Ásbyrgi

Blaðamaðurinn Egill Bjarnason valdi Ásbyrgi í Vatnajökulsþjóðgarði. 

„Fylgstu nógu lengi með veðurspánni á Íslandi og þessar tveggja stafa tölur sem svífa yfir Ásbyrgi munu ná að lokka þig inn. Þetta gróskumikla, hóflaga gljúfur er ein risastór sólarverönd þökk sé 100 metra háum klettum sem halda vindinum í burtu,“ skrifar Egill. 

Hann segir besta tímann til að heimsækja Ásbyrgi vera síðla vors og yfir sumartímann, sérstaklega ef ferðalangar ætli að ganga um svæðið. 

Ásbyrgi er heillandi áfangastaður, sérstaklega á sumrin.
Ásbyrgi er heillandi áfangastaður, sérstaklega á sumrin. Ljósmynd/Unsplash/Miha Rekar

Neskaupstaður

James Taylor, ferðarithöfundur og ljósmyndari, valdi Neskaupstað á Austurlandi. 

„Það er eitthvað sérstakt við hrikalegu firðina á Austurlandi. Þrátt fyrir að vera ein dramatískasta og fallegasta strandlengja landsins renna flestir í gegnum hana. Fyrir þá sem hins vegar stoppa þar er þetta besti staðurinn til að upplifa þig lítinn í víðáttumiklu og stórbrotnu landslagi,“ skrifar hann.

Af öllum fallegu stöðunum sem Austfirðir bjóða upp á segist Taylor ekki hafa verið lengi að velja sinn uppáhaldsstað, Neskaupstað, enda sé þar ótrúleg landsslag og mikið að upplifa. 

Neskaupstaður er á Austurlandi.
Neskaupstaður er á Austurlandi. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka