Ruddi burt heimatilbúnum hindrunum

Ása Marin fór til Sevilla fyrir jólin og upplifði sannkallaða …
Ása Marin fór til Sevilla fyrir jólin og upplifði sannkallaða aðventustemmingu. Ljósmynd/Aðsend

Ása Marin Hafsteinsdóttir er rithöfundur, fararstjóri og kennari. Hún er þekkt fyrir heillandi ferðaskáldsögur á borð við Elsku sólir og Yfir hálfan hnöttinn. Ferðalög eru því alltaf ofarlega í huga hennar og er hún hokin reynslu enda ferðast víða. Ganga hennar um Jakobsveginn ruddi burt hindrunum um að ferðast ein en hún komst að því sér til mikillar gleði að það að ferðast ein væri bara ekki svo slæmt.

Síðasta ferðalagið sem þú fórst í?

„Ég vinn sem fararstjóri í hjáverkum og öll ferðalög ársins 2023 voru vinnuferðir á Íberíuskaganum. Síðasta ferð ársins var farin í upphafi aðventu til borgarinnar Sevilla. Þetta var stutt helgarferð en hún stimplaði inn jólastemminguna.

Inn á milli vinnustunda nartaði ég í grillaðar kastaníuhnetur og rölti um jólamarkað sem seldi útskornar styttur sem fólk kaupir og stillir upp til að búa til sína helgimynd af fæðingu Jesú. Hápunktur helgarinnar var þegar kveikt var á jólaljósunum í miðbænum.

Sevillabúar eru oft kallaðir skemmtanaglöðustu Spánverjarnir og tugþúsundir heimamanna flykktust í bæinn til að dansa, syngja og gleðjast saman um leið og litrík ljósadýrðin lýsti upp kvöldið.“

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Margar minningar skapast við hvert ferðalag en sú ferð sem hefur haft hve mestu snjóboltaáhrif er þegar ég gekk Jakobsveginn. Ekki bara vegna þess að sú ganga varð til þess að fyrsta skáldsagan sem ég skrifaði fæddist, heldur ruddi ég líka í burt heimatilbúnum hindrunum um að ferðast ein.

Ég hafði farið áður ein til útlanda, bæði í ensku- og spænskunám og svo að vinna, en þá bjó ég hjá fjölskyldu eða eignaðist vini strax á fyrsta degi. Þessi ferð var öðruvísi því þetta var í fyrsta sinn sem ég fór í ferðalag þar sem ég upplifði mig eina og mér til mikillar gleði þá var það ekki agalegt.“

Fallegt um að litast á Spáni.
Fallegt um að litast á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér draumaferðalag?

„Listinn yfir þá staði sem mig langar að heimsækja virðist óyfirstíganlegur. Það ótrúlega er líka að hann lengist alltaf eftir því sem ég ferðast meira og kynnist fleira fólki. En ef ég á að velja bara eitt ferðalag þá myndi ég vilja taka nokkra mánuði og kanna Suður Ameríku. Ég hef aldrei stigið niður fæti í þeirri heimsálfu og mig langar mjög mikið að sjá saltsléttuna í Bólivíu, fara á inkaslóðir í Peru, sjá Iguazu fossana á landamærum Argentínu og Braselíu og rölta um stræti Cartagena í Kólumbíu.“

Einhver góð ferðaráð?

„Gott ferðaráð er að læra örfá orð í tungumáli þeirra sem þú heimsækir. Þó svo að þú kunnir það ekki til að halda upp samræðum þá er almenn kurteisi að bjóða góðan daginn og þakka fyrir sig. Strax og þú reynir þá finnst mér heimamenn tilbúnari til að skipta yfir í annað tungumál sem þið bæði kunnið, nú eða eiga samskipti með brosum og látbragði ef ekkert tungumál er sameiginlegt.

Annað ferðaráð, og nýtist mér sérstaklega þegar ég ferðast ein, er að hlusta á innsæið. Ef einhver tilfinning segir þér að gera eitthvað eða sleppa því að gera eitthvað, hlýddu þá þeirri tilfinningu.“

Skemmtilegustu ferðafélagarnir?

„Skemmtilegustu ferðafélagarnir eru þeir sem ferðast með opinn hug og opið hjarta. Þeir sem eru ekki bara komnir á áfangastað til að sjá byggingar og náttúruna, heldur líka til að kynnast heimamönnum, sögu þeirra og menningu.“

Eru einhver ferðalög framundan?

„Það eru nokkrar vinnuferðir áætlaðar árið 2024, til dæmis verð ég með ferð á söguslóðir skáldsögunnar Elsku sólir í haust. Í þeirri ferð gistum við í borgunum Granada, Sevilla, Ronda og Malaga. Auk þess að skoða þá staði þá heimsækjum við nokkur af hvítu þorpunum svokölluðu sem öll hafa sinn sjarma.“

„Síðan langar mig að ferðast meira um Ísland, það er til dæmis skammarlega langt síðan ég fór síðast á Vestfirði eða heimsótti Austfirði.“

Það var jólalegt á Spáni.
Það var jólalegt á Spáni. Ljósmynd/Aðsend
Ása Marin er bæði rithöfundur og fararstjóri og er hokin …
Ása Marin er bæði rithöfundur og fararstjóri og er hokin reynslu hvað ferðalög varðar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert