8 leiðir til að kenna börnum sjálfsaga

Unsplash/Keren Fedida

Óháð því hvernig aga þú vilt beita barninu þínu þá er það lokamarkmið flestra foreldra að kenna barninu sínu sjálfsaga. Allt frá því að velja að slökkva á tölvuleiknum til að vinna heimavinnuna í að standast freistinguna til að fá sér smáköku þegar foreldrarnir sjá ekki til, þá er sjálfsagi lykillinn að því að hjálpa börnum að verða ábyrgir fullorðnir einstaklingar.

Hér eru nokkra leiðir til að kenna barninu þínu sjálfsaga.

Veittu stöðugleika

Hafðu dagskrána svipaða á hverjum degi, börn munu venjast rútínunni. Þegar þau vita hvað þau eiga að gera er ólíklegra að þau fari út af sporinu og gleymi sér í einhverju öðru. Góð morgunrútína hjálpar börnum að vita hvenær það er kominn tími til að borða morgunmat, greiða hárið, bursta tennurnar og klæða sig. Góð rútína eftir skóla kennir börnunum hvernig á að skipta tíma sínum á milli húsverka, heimanáms og skemmtilegra athafna. Samfelld rútína fyrir svefninn mun hjálpa börnunum að sofna fyrr.

Hafðu rútínurnar einfaldar. Með æfingunni mun barnið þitt læra að innleiða hana án þinnar aðstoðar.

Útskýrðu ástæðurnar á bak við reglurnar

Þegar kemur að því að hjálpa börnum að læra hvernig á að taka heilbrigðar ákvarðanir er best að útskýra fyrir þeim hvað liggur á bak við reglurnar. Í staðinn fyrir að segja barninu þínu að vinna heimavinnuna sína því þú segir það, skaltu útskýra hvers vegna barnið þarf að gera það.

Ein leið er að segja barninu að það sé gott að gera heimavinnuna fyrst svo það geti notið frítímans eftir á, sem eins konar verðlaun fyrir heimavinnuna. Þetta hjálpar barninu að skilja undirliggjandi ástæður fyrir reglunum og skilja að reglurnar þjóna tilgangi. Óþarfi er að eyða miklum tíma í útskýringarnar, fljótleg útskýring á því hvers vegna þú telur að ákveðna ákvarðanir séu mikilvægar getur hjálpað barninu þínu að skilja valið betur.

Vertu með afleiðingar

Stundum geta náttúrulega afleiðingar kennt einhverja stærstu lexíu lífsins. Barn sem gleymir stöðugt að taka úlpuna sína með þegar það hleypur út um dyrnar lærir ekki af því ef foreldri kemur alltaf með jakkann í skólann. Að horfast í augu við náttúrulegar afleiðingar hegðunar sinnar gæti hjálpað þeim að muna eftir úlpunni næst. Í öðrum tilfellum þurfa börn á rökréttum afleiðingum að halda. Barn sem fer of hörðum höndum um heimilistölvuna, gæti lært að blíðari handtök þegar það missir tölvutímann sinn. Barn sem á í erfiðleikum með að vakna á morgnana getur lært af því að fara fyrr að sofa.

Mikilvægt er þó að forðast valdabaráttu. Að reyna að þvinga barnið þitt til að gera eitthvað mun ekki kenna því sjálfsaga. Útskýrðu hverjar neikvæðu afleiðingarnar verða ef barnið þitt tekur slæmar ákvarðanir. Leyfðu barninu þínu síðan að velja. Fylgstu síðan með afleiðingunum en ekki öskra eða reyna að þvinga barnið til að hlýða.

Hafðu í huga að börn þurfa að læra hvernig á að taka skynsamar ákvarðanir á eigin spýtur, með því að skoða hugsanlegar afleiðingar hegðunar þeirra.

Mótaðu hegðun hægt og bítandi

Sjálfsagi er ferli sem tekur mörg ár að slípa og betrumbæta. Notaðu agaaðferðir sem henta aldri barnsins til að móta hegðunina hægt og bítandi. Í stað þess að búast við því að 6 ára gamalt barn geti allt í einu sinnt allri morgunrútínunni hjálparlaust, skaltu nota veggtöflu með myndum sem sýnir barnið að greiða sér, bursta tennur og klæða sig.

Þegar nauðsyn krefur skaltu minna barnið þitt á að skoða töfluna þar til barnið getur sjálft horft á töfluna og gert hvert verkefni upp á eigin spýtur. Með tímanum þarf barnið þitt færri áminningar og á endanum þarf það ekki á töflunni að halda.

Hrósaðu fyrir góða hegðun

Veittu barninu jákvæða athygli og hrós þegar barnið þitt sýnir sjálfsaga. Bentu á góða hegðun sem þú vilt sjá oftar. Stundum fer þó góð hegðun óséð. Með því að hrósa börnum fyrir að taka góðar ákvarðanir eykur líkurnar á því að þau endurtaki þá góðu hegðun.

Hrósaðu einnig barninu þegar það gerir eitthvað án þess að þurfa áminningu. Slíkt getur hvatt barnið til þess að endurtaka slíka frammistöðu.

Kenndu barninu að vera lausnamiðað

Kenndu barninu þínu færnina við að leysa vandamál og vinna saman að því að leiðrétta ákveðin atriði sem tengjast sjálfsaga. Með því að spyrja barnið hvað það telji vera gagnlegt getur opnað huga barnsins og leitt til skapandi lausna.

Sumum hegðunarvandamálum fylgir tiltölulega auðveld lausn. Barn sem á í erfiðleikum með að klæða sig fyrir skólann gæti haft gott af því að hafa fötin valin og gerð tilbúin kvöldinu áður. Að stilla tímamæli gæti líka haldið því við efnið. Flóknari vandamálum fylgja flóknari lausnir. Hér gæti þurft að leyfa barninu að finna fyrir afleiðingunum. Haltu áfram að prófa mismunandi lausnir þar til þú finnur eitthvað sem virkar og leyfir barninu að taka þátt í ferlinu.

Sýndu gott fordæmi

Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Ef barnið þitt sér þig í sífellu fresta einhverjum verkefnum, eins og að velja að horfa á sjónvarpið í stað þess að vaska upp, mun það taka upp venjur þínar. Gerðu það að forgangsverkefni að sýna gott fordæmi hvað varðar aga.

Gefðu því gaum sem þú átt í erfiðleikum með þegar kemur að aga. Kannski eyðir þú of miklum peningum eða missir stjórn á skapi þínu þegar þú reiðist. Reyna að vinna að því að lagfæra þetta og gerðu barninu þínu ljóst að þú leitast við að gera betur.

Verðlaunaðu fyrir góða hegðun

Verðlaunakerfi getur náð til ákveðinna hegðunarvandamála. Leikskólabarn sem á í erfiðleikum með að sofa í eigin rúmi gæti notið góðs af límmiðatöflu til að hvetja það. Eldra barn sem á í erfiðleikum með að klára heimavinnuna eða húsverk gæti notið góðs af því að fá einhvers konar verðlaun fyrir unnið verk.

Verðlaunin þurfa ekki að vera í formi peninga. Notaðu sérréttindi, eins og tölvutíma eða þess háttar, til að hvetja barnið þitt til að vera ábyrgari. Verðlaunakerfin ætti að nota til skamms tíma. Hættu að nota þau í áföngum þegar barnið þitt byrjar að öðlast sjálfsaga.

Verywell Family

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert