Svona losnar þú við höfuðlúsina

Höfuðlúsin nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum.
Höfuðlúsin nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum. Samsett mynd

Allir geta smitast af höfuðlús, litla skordýrinu sem lifir sníkjulífi í hársverðinum, en það er algengt vandamál hjá börnum á skólaaldri eða frá þriggja til 12 ára aldurs. Höfuðlús getur valdið miklum óþægindum eins og ofsakláða og því mikilvægt fyrir foreldra og forráðamenn að vera meðvitaða um einkenni þessa skordýra svo hægt sé að grípa til aðgerða sem fyrst. 

Hvað er höfuðlús?

Höfuðlús er lítið vængjalaust skordýr sem hefur aðlagað sig manninum og eyðir æviskeiði sínu í hárinu á höfðinu. Hún nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum, en það er þeirra eina fæða.

Þær geta hvorki hoppað, flogið né synt en láta til skara skríða með því að skríða frá einu höfði yfir á annað ef að bein snerting verður frá hári til hárs. 

„Höfuðlús dreifir engum sjúkdómum,“ útskýrir Dr. Jiny Coronado, barnalæknir hjá Pediatrix Primary and Urgent Care í Texas. „Hver sem er getur fengið höfuðlús og hefur persónulegt hreinlæti ekkert með það að gera að fá höfuðlús.“

Fyrstu ummerkin 

Algengasta einkennið er kláði, en það getur stafað af ofnæmisviðbrögðum við munnvatni lúsarinnar sem sprautast undir húðina þegar lúsin nærir sig.

Samkvæmt Wendy Long Mitchell, löggiltum húðsjúkdómalækni, eru önnur einkenni:

  • Pirringur
  • Erfiðleikar með svefn
  • Eymsli í hársverði
  • Roði

Leitin að lúsinni

Það getur reynst erfitt að finna lifandi höfuðlýs í hársverðinum þar sem þær forðast ljós og skríða hratt, en samkvæmt Dr. Coronado þá eru þetta skrefin til þess að ná sem bestum árangri í baráttunni við skordýrið.

  • Leita þarf að lús með nákvæmri skoðun, en það er best gert með kembingu með lúsakambi yfir hvítum fleti (td. A4-blaði) eða spegli og í vel lýstu rými.
  • Best er að skipta hárinu í litla hluta og fínkemba í gegnum hvern hluta. 
  • Ef það finnst nit (lúsaegg) er það ekki ótvírætt merki um lúsasmit.
  • Finnist lús, er það merki um að viðkomandi sé með höfuðlús og þurfi á meðferð að halda. 
  • Fyrir suma dugar að kemba í gegnum hárið einu sinni á dag í 14 daga. Aðrir þurfa meðferð með lúsadrepandi efnum sem fást í öllum helstu apótekum. 

Gömul húsráð

Ýmis gömul húsráð, svo sem að setja júgursmyrsli eða vaselín í hárið, majónes, ólívuolíu eða jurtaolíu, drepa ekki höfuðlýs.

Ekki er hægt að mæla með notkun ilmolía í baráttunni við höfuðlús og líklegt að slíkt geri ekkert gagn þó svo margir mæli með Tea Tree olíu vegna sótthreinsandi eiginleika hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka