„Ég vildi alls ekki að börnin mín myndu upplifa það sem ég upplifði“

Perla Sif Hansen með Myrkár Cýrus sem fæddist í febrúar. …
Perla Sif Hansen með Myrkár Cýrus sem fæddist í febrúar. Perla er á öðrum stað en þegar hún eignaðist frumburð sinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Perla Sif Hansen var í tíunda bekk í grunnskóla þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn. Í dag á hún tvö börn en yngra barnið eignaðist hún 33 ára gömul. Það að eignast barn svona ung breytti henni og var hún ákveðin í að vernda son sinn og gæta þess að hann fengi betra líf en hún sjálf.

Perla lifir góðu lífi í dag og er í hamingjusömu sambandi. Hún hefur fengið viðurkenningu á því hver hún er en eftir mikla baráttu var hún greind með ódæmigerða einhverfu á fullorðinsaldri.

„Þegar ég var að alast upp hafði ég ekki hugmynd um að ég væri einhverf. Ég ólst upp við erfiðar aðstæður. Móðir mín hafði lítinn skilning á minni líðan. Þegar ég var greind með krónískt þunglyndi og ofsakvíða var mér sagt að ég væri bara með stæla. Mér var sagt að ég væri löt, feit og illkvittin. Hegðun mín var skilgreind sem athyglissýki sem gerði það að verkum að ég fór að trúa því. Ég skildi ekki mannfólk, ég skildi ekki hegðun. Ég geri mér ekki grein fyrir tónhæð þegar ég tala þannig að ég hef oft hljómað eins og ég sé að reyna að vera leiðinleg,“ segir Perla.

Perla fór að velta fyrir sér hvort hún gæti verið einhverf þegar Alexander, eldri drengurinn hennar, var sendur í greiningarferli á leikskóla. Í greiningarferlinu kom í ljós að hann væri með ódæmigerða einhverfu.

„Samkvæmt sérfræðingnum voru samskiptin okkar óeðlileg, en ég upplifði það ekki þannig. Ég vildi veita syni mínum þann stuðning sem mér fannst ég aldrei hafa fengið sjálf. Allt sem mér fannst vanta í mitt uppeldi reyndi ég að bæta í hans,“ segir Perla en það tók hana tíu ár að fá greiningu.

Perla Sif Hansen og Einar Merlin Cortes ásamt Alexander sem …
Perla Sif Hansen og Einar Merlin Cortes ásamt Alexander sem er á 19. ári og Myrkári Cýrusi sem fæddist í febrúar. Tíkin Sif er hluti af fjölskyldunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Myndi ekki óska neinum að vera í sömu sporum

Perla varð ólétt þegar hún var í níunda bekk. Frumburðinn Alexander kom í heiminn þegar hún var komin í tíunda bekk en hann er fæddur í nóvember. Það var ekki draumur hennar að eignast barn svona ung en í dag er hún þakklát fyrir son sinn.

„Ég bjó hjá móður minni og stjúpföður og þegar ég var níu ára eignaðist ég bróður. Ég var nýbúin að fara í gegnum hálfgert uppeldishlutverk því það lenti mikið á mér að sjá um litla bróður minn. Mamma og stjúpfaðir minn voru mikið að vinna og þegar þau voru ekki að vinna vildu þau fá að hvíla sig og allt það. Ég var ekkert sérlega hrifin af börnum. Ég mátti til dæmis aldrei aga litla bróður minn eða skamma hann. Hann var frumburður stjúpföður míns og einkabarn hans. Þetta gerði það að verkum að ég ætlaði aldrei að eignast börn,“ segir Perla.

Perla fékk áfall þegar hún áttaði sig á því að hún væri barnshafandi. Hennar fyrsta hugsun var að ljúka meðgöngunni en móðir hennar kom í veg fyrir það. Eftir á að hyggja er Perla ánægð með að móðir hennar hafi stoppað þungunarrof. Óléttan og aðstæður heima fyrir framkölluðu mikla vanlíðan.

„Ég hugsaði að ég gæti ekki verið í tíunda bekk með barn. Í dag myndi ég ekki óska neinum að vera í sömu sporum og ég var. Þetta var áfall út af fyrir sig, bæði meðgangan og fæðingin,“ segir Perla.

Perla segist hafa fundið fyrir mikilli ólgeði á meðgöngunni og fékk auk þess meðgöngueitrun. Henni leið heldur ekki alltaf eins og hún væri örugg á heimilinu. „Stjúpfaðir minn lagði hendur á mig þegar ég var komin tæplega fjóra mánuði á leið. Það var mikil óregla á heimilinu og gerði ég allt til þess að fela ástandið,“ segir Perla. Lögreglan var tíður gestur á heimilinu og barnaverndarnefnd hafði afskipti af fjölskyldunni.

Perla fékk þáverandi maka til þess að tilkynna ástandið á heimilinu þegar sonur þeirra var sex mánaða. Hún minnist þess að hafa farið á fund með barnavernd þegar Alexander var sex mánaða.

„Á fundi með barnaverndarnefnd viðurkenndi mamma að ég hefði orðið fyrir líkamlegu ofbeldi á heimilinu. Ég var svo hamingjusöm því ég hélt að eitthvað yrði gert, eitthvað myndi breytast. En svo bætti mamma því við að ég hefði átt ofbeldið skilið og ég man ekkert hvað gerðist eftir það. Ég man bara að við fórum heim. Ég var náttúrulega í vandræðum af því ég var að reyna að eyðileggja fjölskylduna,“ segir Perla. Upp frá þessu fór hún að telja niður í 18 ára afmælisdaginn sinn því þá loksins yrði hún frjáls og gat flutt út af heimilinu. 

„Hún hefur kannski haldið að hún væri bara að hjálpa“

Fyrstu mánuðirnir með ungbarn voru nokkuð frábrugðnir því sem margar nýbakaðar mæður eiga að venjast. Perla var á spítala í nokkra daga eftir erfiða fæðingu. Eftir að hún kom heim þurfti hún fljótlega að fara að læra. „Ég mætti lítið í skólann eftir áramót. Ég reyndi mitt besta og náði samræmdum prófum og sex einingum inn í framhaldsskóla. Það gekk allt upp. Mamma náttúrulega tók fram fyrir hendurnar á mér. Ég upplifði að mega ekki ala son minn upp eins og ég vildi ala hann upp. Hún hefur kannski haldið að hún væri bara að hjálpa. Stressið í kringum skólann og heimilið varð til þess að ég gat ekki haft hann á brjósti nema í tvo til þrjá mánuði. Eftir það hætti ég að mjólka,“ segir Perla sem fann þó fyrir sterkri móðurtilfinningu fljótt.

Perla, sem er góður námsmaður, fór í framhaldsskóla eins og aðrir unglingar. Hún er einnig góð í höndunum, teiknar, málar og sker út í við. „Ég fór í Vélskólann af því að það er skólinn sem mamma mín skráði mig í. Hún leyfði mér ekki að fara í FB á listnámsbraut eins og ég ætlaði mér,“ segir Perla sem hafði engan áhuga á vélum. Hún var þó fljót að tileinka sér námsefnið og umhverfið hentaði henni ekki illa þar sem hún var með eldri mönnum í tímum sem höfðu lítinn áhuga á henni. Hún fékk að vera í friði eins og hún vildi. „Ef ég gæti farið til baka hefði ég farið í FB á listnámsbraut,“ segir Perla.

Það kom sá tími í lífi Perlu að hún ákvað …
Það kom sá tími í lífi Perlu að hún ákvað að flýja heimili foreldra sinna en þá var Alexander á leikskólaaldri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flúði í Kvennaathvarfið

Talað er um kynslóðatilfærslu þar sem vanræksla eða ofbeldi á heimili erfist á milli kynslóða. Perla ætlaði ekki að láta sama mynstrið endurtaka sig á hennar heimili. „Það kemur þessi tímapunktur að maður hugsar til baka um eigið uppeldi og hvað maður hefði viljað að hefði verið gert öðruvísi. Það er mín upplifun. Hins vegar veit ég ekki hvort það sé upplifun allra. Það var þessi andskotans þrjóska í mér að ég vildi alls ekki að börnin mín myndu upplifa það sem ég upplifði. Ég ímynda mér að móðir mín hafi viljað gefa börnunum sínum betra líf en hún fékk,“ segir Perla en segir það ekki hafa tekist betur en svo.

Perla ákvað endanlega að sogast ekki inn í vítahring ofbeldis þegar hún flúði að heiman 18 ára en þá bjó hún með móður sinni í Sandgerði. „Ég gekk á milli móður minnar og stjúpföður og ég var slegin fyrir það af stjúpföður mínum. Alexander sat frammi og var að horfa á sjónvarpið og var í beinni sjónlínu en kippti sér ekki upp við atvikið. Það var eitthvað sem klikkaði í höfðinu á mér við þetta. Ég gat ekki leyft þessu að vera normið fyrir hann. Þannig að ég tók hann, pakkaði fötum fyrir hann og fór út í bíl. Móðir mín elti mig, ég man ekki hvort það var hnífur eða verkfæri en hún hótaði að stinga á dekkin hjá mér ef ég færi, sem hún svo gerði,“ segir Perla sem segir að hún hafi farið fyrst á lögreglustöðina í Keflavík, þar sem gert var við dekkið, og svo í Kvennaathvarfið með Alexander son sinn í nokkra mánuði.

Perla Sif átti erfiða æsku en en er staðráðin í …
Perla Sif átti erfiða æsku en en er staðráðin í að veita börnunum sínum meiri umhyggju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ætlaði aldrei að eignast annað barn

Perla og Einar Merlin Cortes eru búin að vera saman í 16 ár. Þrátt fyrir langt og farsælt samband var ekki planið að stækka fjölskylduna. „Ástæðan fyrir því að ég beið svona lengi með að eignast annað barn var sú að ég ætlaði aldrei að eignast annað barn. Áfallið við fyrri meðgöngu og fæðingu var það mikið að ég vildi aldrei ganga í gengum þetta aftur,“ segir Perla.

Á bolludaginn fyrr á þessu ári tók Perla nánast ekki eftir því að hún var farin af stað þó svo að Einar hafi verið nokkuð viss um það. Þegar hún hringdi á læknavaktina til að athuga hvort óþægindin sem hún upplifði væru eðlileg var henni tjáð að verkirnir væru mun verri ef hún væri komin af stað. Í ljós kom að Perla hefur töluvert hærri sársaukaþröskuld en margt annað fólk. Hún veit ekki hvort ástæðan er erfðatengd eða sú að henni var kennt að kvarta ekki sem barn. Þau rétt náðu því upp á fæðingardeild áður en Myrkár litli mætti í heiminn.

Einar hefur sinnt uppeldishlutverki síðan hann kynntist Perlu en þetta var í fyrsta sinn sem hann fékk ungbarn í fangið. Perla upplifði fæðingarþunglyndi með eldri son sinn og slapp í þetta skiptið en Einar viðurkennir að hann hafi fundið fyrir depurð. „Á tímabili eftir að hann fæddist datt ég í þunglyndi og átti erfitt með mig. En það þýddi bara það að ég þurfti að vinna meira í sjálfum mér. Þetta er stærsti ljósgeisli sem ég veit um en það að þurfa að fara í alvöruheiminn aftur eftir að hafa verið með honum, að þurfa að hoppa í vinnu, þar kemur þunglyndið. Ég var líka hræddur um að verða faðir minn,“ segir Einar.

„Eins og ég var hrædd um að verða foreldrar mínir,“ tekur Perla undir.

Var sama tilfinningin sem kviknaði núna og þegar þú eignaðist barn fyrst?

„Já algjörlega, það er rosalega furðuleg hamingja. Allt í einu skiptir ekkert jafnmiklu máli. Ég er bara fegin að vera á þannig stað í lífinu að ég get notið þess eins vel og ég er að gera. Að fá að njóta þess að vera nýtt foreldri á mínum hraða. Að þurfa ekkert að afsaka það að ég sé ekki að standa mig heima fyrir, það bara skiptir ekki máli lengur. Hann skiptir miklu meira máli. Við erum ekki fullkomin, við viljum bæta okkur, það er hluti af því að vera manneskja,“ segir Perla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert