Hafþór og Kelsey eiga von á barni eftir ófrjósemi

Hafþór Júlíus og Kelsey Henson eiga von á barni.
Hafþór Júlíus og Kelsey Henson eiga von á barni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Vöðvatröllið Hafþór Júlí­us Björns­son og eig­in­kona hans hin kanadíska Kels­ey Hen­son eiga von á sínu öðru barni. Fyrir eiga þau soninn Storm sem er þriggja ára. Hafþór og Kelsey greina frá því að þau hafi glímt ófrjósemi. 

„Við erum svo hamingjusöm að segja frá því að Stormur verður stóri bróðir í mars. Hann hefur nú þegar tekið hlutverk sitt alvarlega,“ skrifa þau meðal annars á samfélagsmiðla. 

Ferlið reyndi á

Þau deila ítarlegri sögu sinni í löngu myndskeiði á Youtube. Þar segja þau frá því að það er ekki alltaf auðvelt að stofna fjölskyldu. 

„Það voru næstum því tvö ár frá því að ég hætti á getnaðarvörn þangað til að ég varð ólétt,“ sagði Kelsey um fyrra skiptið. Hún segir það ekki hræðilegt en mjög erfitt þegar löngunin til þess að eignast barn er mikil. 

Þau fóru í tæknifrjóvgun í Póllandi en það gekk ekki. Kelsey segir að það hafi tekið mjög á. Eftir misheppnaða tilraun varð hún fljótlega ólétt náttúrulega að syni þeirra. „Við vorum mjög, mjög heppin,“ segir Kelsey. 

Síðustu þrjú ár hafa hjónin þráð að stækka fjölskylduna. Þau hafa reynt að eignast barn en ekkert gerst. Þau ákváðu því að fara aftur í tæknifrjóvgun í maí. Aðeins einn fósturvísir reyndist nógu góður, hann var settur upp og nú er Kelsey ólétt. 

„Eftir að hafa gengið í gegnum tæknifrjóvgun sem gekk ekki upp var ég með engar vonir. Ég ætla ekki að ljúga, ég ætlaði ekki að gera mér neinar vonir, mig langaði ekki að upplifa þessi vonbrigði aftur,“ sagði Kelsey í myndskeiðinu. 

Fjölskylduvefur mbl.is óskar þeim til hamingju með gleðifréttirnar!

View this post on Instagram

A post shared by Kelsey Henson (@kelc33)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert