4.000 einstaklingar bíða eftir ADHD greiningu

Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD samtakanna segir stöðuna á biðlistum í …
Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD samtakanna segir stöðuna á biðlistum í ADHD greiningu vera afar slæma. Samsett mynd

Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD samtakanna ræddi í gær við mbl.is um stöðuna á biðlistum í ADHD greiningu barna og fullorðinna, en hann segir stöðuna afar slæma og furðar sig á nýlegum takmörkunum á aðgengi að greiningu.

„Í stuttu máli eru 4.000 einstaklingar, eða eitt prósent þjóðarinnar, á biðlista eftir ADHD greiningu sem að óbreyttu tekur fjögur ár að vinna niður. Flestir hafa þegar farið í gegnum skimun og líklegt að stór hluti fái staðfesta ADHD greiningu,“ segir Vilhjálmur. Hann segir stöðuna grafarvarlega og nefnir skort á fjármagn og skilningsleysi á raunverulegri stöðu mála sem hluta vandamálsins. 

Ferlið frá upphafi til enda

Að sögn Vilhjálms hefst aðdragandi greiningarferilsins með skimunum sem ýmsir aðilar geta komið að. „Hjá ADHD teymi fullorðinna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er skimunin framkvæmd af heimilislækni eða öðrum lækni með lyflækningaleyfi,“ segir Vilhjálmur. 

„Við skimun og fyrstu skrefum greiningar er leitast við að staðfesta hvort ADHD hafi verið til staðar á uppvaxtarárum. Þetta er meðal annars gert til að hægt sé að staðfesta tilvist ADHD áður en ýmis áföll eða veikindi koma til, sem framkallað geta ADHD lík einkenni þó ADHD sé ekki til staðar. Skýrt dæmi um þetta er áfallastreyturöskun hjá ungu barni þar sem forsaga er afar takmörkuð. Undir þeim kringumstæðum er nær ógerlegt að staðfesta ADHD greiningu, nema þá fyrst sé unnið úr áfallinu,“ útskýrir Vilhjálmur.

„Eins er nauðsynlegt að íhuga hvort kvíði eða geðlægðir eigi sér aðrar ástæður en að vera bein afleðing af ógreindu og/eða ómeðhöndluðu ADHD. Í flestum tilfellum hér á landi er staðið faglega að þessu ferli og vandað til verka. Vissulega finnast einhverjar brotalamir þar á, en forðast ber að láta þau fáu tilvik skemma fyrir heildinni,“ bætir hann við. 

Vilhjálmur segir að í flestum tilfellum byrji greiningarferlið svo hjá sálfræðingi sem starfar sjálfstætt eða í teymi sálfræðinga og jafnvel geðlæknis. Hins vegar geti ferlið hjá börnum hafist hjá barnalækni sem hefur sérmenntun hvað ADHD varðar. Síðar koma aðrir að málinu, sálfræðingar og aðrir sérfræðingar um hegðun og þroska barna. 

Þá segir hann aðkoma geðlæknis í raun ekki nauðsynlega ef ekki á að íhuga lyfjameðferð, en sé lyfjameðferð ákveðin muni sá heimilislæknir sem kom að skimun í byrjun sjá um endurnýjun á lyfseðlum og lyfjaskírteini. Aðkoma geðlæknis getur þó verið nauðsynleg ef t.d. grunur er um að aðrar raskanir séu til staðar, með eða án ADHD.

Segir fordóma iðulega byggja á vanþekkingu

Vilhjálmur segir að reglulega spretti upp neikvæð umræða um ADHD greiningar og lyfjameðferð meðal almennings og jafnvel fagaðila. „Þetta veldur of miklum usla, ekki síst þegar verið er að blanda misnotkun fíkla saman við þann stóra hóp sem hefur mikið gagn af lyfjameðferð og stæðu mun verr án hennar. Ein hlið orðræðunnar snýr að greiningum, þar sem talað er stórt um ofgreiningar og verið sé að stimpla einstaklinga að óþörfu. Staðreynd málsins er hins vegar sú að greining ein og sér er fyrst og fremst staðfesting á hvað að baki liggi. Ferlið hér heima er að mestu unnið af fagaðilum sem leggja metnað í allt greiningarferlið, það er einfaldlega staðreynd hvað sem einhver hrópar á samfélagsmiðlum, “ segir hann.

„Eins er tal um ofgreiningar að hluta endurómun af stöðu mála í Bandaríkjunum, þar sem allt aðrir samfélagslegir þættir og skortur á aðgengi að heilbrigðisþjónustu spila stóra rullu. Að kalla hvers kyns greiningar einhverja stimplun má vísa beint til föðurhúsanna. Enda byggir stimplunin iðulega á eigin fordómum viðkomandi,“ bætir hann við.

Vilhjálmur segir fordóma af þessu tagi iðulega byggja á vanþekkingu á málefninu. Aðspurður segir hann bestu leiðina til að berjast gegn fordómum vera að fræða aðra, vísa í gagnreyndar staðreyndir og ekki síst að tala um jákvæðu hliðarnar. 

„Við erum öll hluti af fjölbreyttri flóru samfélagsins, samfélags sem yrði öllu fátæklegra ef öllum er steypt í sama mót. Sú vinna byrjar ávallt hjá manni sjálfum og svo má takast á við heiminn. Þetta hefur verið eitt af megin markmiðum ADHD samtakanna frá stofnun,“ útskýrir hann. 

Afleiðingar af ómeðhöndluðu ADHD geti verið alvarlegar

Vilhjálmur segir afar mikilvægt að fólk fái greiningu og viðeigandi meðferð við ADHD enda geti afleiðingar við ómeðhöndluðu ADHD verið alvarlegar. 

„Þannig séð getur greining aldrei verið slæm, jafnvel þó útkoman sé neikvæð eða staðfesti að eitthvað annað en ADHD sé til staðar. Með þá vitneskju í höndunum getur einstaklingurinn og aðstandendur byrjað að vinna úr málunum og byggja sér betri framtíð,“ segir hann. 

„Í dag er jafnframt viðurkennt að lífslíkur einstaklingar með ógreint og/eða ómeðhöndlað ADHD eru 9-13 árum styttri en gengur og gerist, tíðni sjálfsvíga um þriðjungi hærri og ævitekjur mun lægri svo eitthvað sé nefnt. Afleiðingar af ómeðhöndluðu ADHD geta einnig valdið kvíð, þunglyndi og ýmsum öðrum geðrænum og félagslegum vandamálum. Bæði hjá börum og fullorðnum. Hvað fyrrnefnda hópinn varðar getur þetta haft gríðarleg áhrif á andlegan og félagslegan þroska á uppvaxtarárunum, þeim mikilvæga tíma sem mörgum reynist erfitt að vinna sig út úr seinna á ævinni,“ útskýrir hann.

„Fullorðnir einstaklingar sem greinast seint á ævinni upplifa oftar en ekki að allt sé komið í hnút, fjármálin í óreiðu, samband við maka, fjölskyldu og vini á vonarvöl. Það getur verið mikið áfall, en um leið er greining og meðferð lykilatriði í að ná sér á strik og byggja upp nýja framtíð. Greiningar, lyf og önnur úrræði bjarga hreinlega mannslífum,“ bætir Vilhjálmur við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka