„Maður var helst að læra þetta af ömmu heima í felum“

Marta María Arnarsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans.
Marta María Arnarsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hússtjórnarskólinn í Reykjavík ætlar í fyrsta sinn að bjóða upp á barna- og unglinganámskeið í vor.

Boðið er upp á námskeið fyrir tvo aldurshópa – 10-13 ára og 13-16 ára. Nemendur læra ýmislegt gagnlegt eins og til dæmis helstu undirstöður í hekli, matreiðslu, bakstri, þvotti og ræstingu.

„Þegar ég var lítil voru mín helstu áhugamál að baka og sinna handavinnu, eins og að hekla, prjóna og sauma. Það var samt eitthvað sem var ekki í boði að „æfa“, maður var helst að læra þetta af ömmu heima í felum. En ég gat vissulega fengið að æfa alls konar annað eins og fiðlu, ballett og söng,“ segir Marta María Arnarsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík.

Draumur að leyfa börnum og unglingum að „æfa“ hekl og matreiðslu

„Þegar ég fór sjálf í Hússtjórnarskólann 18 ára gömul fékk ég síðan útrás fyrir öll þessi áhugamál sem ég sinnti áður bara heima, og hitti samnemendur sem voru allir með nákvæmlega sömu áhugamál og ég, sem var ferlega skemmtileg upplifun. Að setja upp svona „Míní-Húsó“-námskeið hér hefur því verið draumur til að leyfa börnum og unglingum að fá að „æfa“ hluti eins og hekl, matreiðslu og ræstingar og hitta aðra jafnaldra með sömu áhugamál. Námið hér í Hússtjórnarskólanum er líka bara fyrir 16 ára og eldri þannig að þarna erum við að ná til yngra fólks sem enn hefur ekki aldur til að sækja hið hefðbundna nám hjá okkur.

Vantaði meira tómstundastarf fyrir börn í hverfinu

„Síðan kom foreldrafélag grunnskóla hér í nágrenninu líka að tali við mig og spurði hvort við gætum ekki boðið upp á eitthvað fyrir börn og unglinga í hverfinu þar sem lítið af tómstundastarfi væri að sækja í nærumhverfi þeirra hér í Vesturbænum. Foreldrar barna og unglinga hér í hverfinu þurfta oft og tíðum að skutla börnum sínum út fyrir hverfið til að sækja tómstundir, eða þá senda börnin sín yfir stórar stofnbrautir til að mæta á æfingar. Það er því ákveðin vöntun á tómstundastarfi hér í hverfinu og þessi námskeið eru okkar leið til að leyfa börnum og unglingum í hverfinu að hlaupa bara yfir í næstu götu til okkar á námskeið. En auðvitað eru allir velkomnir, hvaðan sem þeir eru af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Marta María.

Námskeiðin standa yfir í tíu vikur og er kennt einu sinni í viku. Námskeiðunum lýkur svo með opnu húsi þar sem nemendur sýna afrakstur sinn. Allt efni er innifalið í námskeiðsgjaldi. 

Hússtjórnarskólinn er í afar reisulegu húsi við Sólvallagötu í vesturbæ …
Hússtjórnarskólinn er í afar reisulegu húsi við Sólvallagötu í vesturbæ Reykjavíkur og er það eflaust mikil upplifun fyrir börn og unglinga að fá að hafast þar við og læra eitthvað sem mun alltaf koma að góðum notum í lífinu. mbl.is/Árni Sæberg
Sjónvarpsþættirnir Húsó hafa notið mikilla vinsælda undanfarið en þeir gerast …
Sjónvarpsþættirnir Húsó hafa notið mikilla vinsælda undanfarið en þeir gerast í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert