Richard Belzer er háðfugl hinn mesti og vel þekktur í Bandaríkjunum. Hann hefur stýrt spjallþáttum á sjónvarpsstöðvum þar í landi og leikið í og leikstýrt fjölda þátta bæði í útvarpi og sjónvarpi. Í bók sinni tekur hann fyrir tvö mál, sem honum eru hugleikin. Annars vegar morðið á John F. Kennedy og hins vegar fljúgandi diskar og geimverur, eða JFK og UFOs eins og þeir segja í NY og USA, þar sem allt mögulegt og ómögulegt er skammstafað.
Belzer styttir sér þó ekki mjög leið í þessari bók. Hann leitar víða fanga og nýtir sér allt sem hugsast getur máli sínu til stuðnings. Opinber skjöl, leyniskýrslur, bækur, tímarit og fleira er meðal þess efnis sem hann nýtir sér og er margt af því hið skemmtilegasta aflestrar. Bókin er sett þannig upp, að ýmsu ítarefni, eins og tilvitnunum og viðtölum, er skotið inn í megintextann þar sem við á og þessi innskot eru oft ansi skondin og skemmtileg viðbót.
Ýmsar orsakir lágu fyrir því að John F. Kennedy var af sumum talinn hættulegur stjórnmálamaður. Hann var óþægur ljár í þúfu peningaaflanna og deildi mjög á vafasama starfsemi og peningastjórnun bankanna. Hann barðist hart gegn skipulagðri glæpastarfsemi og velgdi mafíósum undir uggum. Þetta, ásamt afstöðu hans í Kúbudeilunni, telur Belzer að hafi gert það að verkum að mörgum hafi fundist nauðsynlegt að fjarlægja manninn. Belzer telur ennfremur, að Kennedy hafi vitað of mikið um hina fljúgandi furðuhluti og geimverurnar, sem þeim stýrðu og þann feluleik, sem var í kringum þá vitneskju alla. Máli sínu til sönnunar segir hann meðal annars, að forsetinn hafi trúað vinkonu sinni, Marilyn Monroe, fyrir því að geimverur væru í raun og veru til og að hann hefði sannanir fyrir því og það sem verra var, kvikmyndadísin gat ekki þagað yfir leyndarmálinu og sagði frá og þar með hafi þeim er málið varðaði verið ljóst, að nauðsynlegt væri að þagga endanlega niður í forsetanum.
Stuttu síðar fóru að ganga sögur um það, að málm- og plasthlutarnir, sem fundust á búgarði Brazels í Nýju Mexíkó, væru leyfar fljúgandi disks, sem hafði brotlent þarna og ennfremur var því haldið fram, að þarna hefði fundist heillegur stjórnklefi og í honum voru nokkrar geimverur, allar látnar nema ein.
Belzer reynir af fremsta megni að sanna kenningu sína um samsæri. Það er samsæri þeirra sem valdið hafa og þeirra sem auðæfunum stýra. Þessi tvö öfl þagga hvaðeina niður, sem þeir telja að almenningi sé ekki hollt að vita um og þagga niður í þeim, sem reyna að beina athygli manna að svínaríinu.
Hann heldur því fram, að saga fortíðar og nútíðar sé samsafn af lygum, sem menn hafa sammælst um að halda fram sem staðreyndum. Margt sem við sjáum, heyrum og lesum í hinum virtustu fjölmiðlum séu ósannindi, en þeim sé svo haganlega fyrir komið og lygarnar svo vel fram bornar, að við höldum að um sannleikann sé að ræða og gleypum við honum án umhugsunar. Hann hlífir engum og sendir föst skot og mörg í allar áttir. Sem betur fer hafa efasemdarmenn alltaf verið til, þeir, sem ekki gleypa við staðhæfingunum sem yfirvöldin halda fram og leyfa sér að tjá skoðanir sínar í ræðu og riti. Sumir þeirra sleppa lifandi frá andófi sínu og andmælum, eins og Richard Belzer sjálfur er lifandi dæmi um. Hann segir að vísu að það sé einungis því að þakka að hann býr mestan hluta ársins í Frakklandi og fer bara í stuttar heimsóknir til Bandaríkjanna. Æ, æ, æ, kannski eiga þeir, sem vilja Belzer feigan, ekki pening fyrir flugfari til Frakklands?
Því skal ekki neitað, að margt af því sem höfundur bókarinnar heldur fram, er mjög sennilegt og lesandinn efast ekki um á stundum, að kenningin um samsæri sé rétt, en hann skýtur stundum yfir markið, einkum í kaflanum um hina fljúgandi furðuhluti. Það má þó vel lesa þessa bók sér til skemmtunar.
UFOs, JFK and Elvis er eftir Richard Belzer og fæst í Pennanum-Eymundsson.