*GRÉTAR Rafn Steinsson sat allan tímann á varamannabekk AZ Alkmaar þegar lið hans vann Heracles, 1:0, á útivelli í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardagskvöldið.
*HJÁLMAR Þórarinsson lék sinn fyrsta leik á tímabilinu með Hearts í skosku úrvalsdeildinni á laugardaginn þegar hann kom inná sem varamaður gegn Dunfermline, 11 mínútum fyrir leikslok. Hearts vann, 4:1, á útivelli.
*GARÐAR B. Gunnlaugsson var ekki í leikmannahópi Dunfermline en hann hefur ekki náð að spila vegna meiðsla eftir að hann varð löglegur með liðinu um áramótin.
*JÓHANNES Harðarson gat ekki spilað með norska liðinu Start í fyrsta æfingaleik ársins í gær, vegna meiðsla. Start vann þá sænska liðið IFK Gautaborg, 4:3, að viðstöddum á annað þúsund áhorfendum í Sörlandshallen. Hjálmar Jónsson var ekki með Gautaborgarliðinu en hann er að jafna sig af meiðslum.
*LARRY Brown þjálfari New York Knicks hefur nú fagnað sigri í 1000 leikjum sem þjálfari í NBA-deildinni í körfuknattleik en hann stýrði Knicks til sigurs gegn Atlanta Hawks aðfaranótt föstudags, 105:94. Brown er aðeins fjórði þjálfarinn í sögu NBA-deildarinnar sem nær þessum áfanga en Knicks hefur nú sigrað í sex leikjum í röð.
*BROWN, Lenny Wilkens, Don Nelson og Pat Riley eru þeir einu sem hafa náð að vinna 1000 leiki sem þjálfarar í NBA-deildinni.
*ÞRJÁR framlengingar þurfti til þess að knýja fram úrslit í viðureign Philadelphia 76'ers gegn Boston Celtic um helgina í NBA-deildinni í körfuknattleik í Bandaríkjunum en þar hafði 76'ers betur, 125:124.
Chris Webber var atkvæðamikill í liði 76'ers og skoraði 31 stig og tók 13 fráköst. Allen Iverson félagi hans skoraði 33 stig. Ricky Davis lék vel með Boston og skoraði 33 stig og Mark Blount var með 27 stig.
*JOSH Howard og félagar hans Dallas Mavericks fóru á kostum í stórsigri liðsins gegn New Jersey Nets, 110:77. Howard skoraði 29 stig en Keith Van Horn, fyrrum leikmaður Nets, bætti við 23 stigum fyrir Dallas en hann hitti úr öllum fimm 3 stiga skotum sínum í leiknum.
*ÞAÐ dugði ekki hjá Cleveland Cavaliers að LeBron James skoraði 46 stig gegn Phoenix Suns þar sem Suns hafði betur, 115:106, en þetta var níundi sigurleikur liðsis í síðustu ellefu leikjum.
*DWYANE Wade leikmaður Miami Heat var nálægt því að ná þrefaldri tvennu gegn Utah Jazz aðfaranótt sunnudags en hann skoraði 31 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 8 fráköst í 100:94 sigri Heat. Wade hefur þrívegis á sínum ferli náð þrefaldri tvennu í þessum tölfræðiþáttum leiksins. Heat hefur nú unnið fjóra leiki í röð á útivelli en Shaquille O'Neal átti erfitt uppdráttar gegn Jazz og skoraði aðeins 12 stig en tók 14 fráköst.