*ERLA Steina Arnardóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði eitt marka Mallbacken frá Svíþjóð sem vann norska liðið Fart, 3:2, í æfingaleik í Noregi á laugardaginn. Erla Steina skoraði markið með skoti beint úr aukaspyrnu.
*HOLLAND vann stórsigur á Ungverjalandi á útivelli, 5:0, í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu á laugardaginn. Ísland mætir Hollandi í vináttulandsleik í næsta mánuði. Danmörk vann Belgíu, 2:0, á útivelli og Noregur vann Grikkland, 3:0, á útivelli í sömu keppni.
*GRÉTAR Rafn Steinsson var varamaður en kom ekki við sögu hjá Alkmaar þegar lið hans vann Waalwijk, 1:0, á útivelli í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Alkmaar styrkti stöðu sína í öðru sætinu og er nú eina liðið sem gæti náð meistaratitlinum úr höndum PSV Eindhoven þó líkurnar á því séu litlar.
*KÁRI Árnason lék síðasta hálftímann með sænsku meisturunum Djurgården í gær þegar þeir töpuðu, 1:0, fyrir Lilleström í síðari leik liðanna í undanúrslitum Skandinavíudeildarinnar í knattspyrnu sem fram fór í Noregi. Lilleström vann samanlagt 4:1 og mætir FC Köbenhavn í úrslitaleik keppninnar. Sölvi Geir Ottesen var sem fyrr fjarri góðu gamni hjá Djurgården en hann er að jafna sig eftir að hafa slitið krossband í hné í haust.
*HÖRÐUR Sveinsson og Bjarni Ólafur Eiríksson léku báðir allan leikinn með Silkeborg þegar lið þeirra tapaði, 3:1, fyrir Bröndby á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Hörður, sem skoraði 4 mörk í fyrstu tveimur deildaleikjum sínum með Silkeborg, bæði mörkin í sigurleik gegn Bröndby um síðustu helgi, var óheppinn að komast ekki á blað þriðja leikinn í röð.
*BIRKIR Bjarnason, hinn 17 ára gamli unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu, var áfram í byrjunarliði Viking Stavanger í gær er liðið vann Brann, 2:0, í æfingaleik norsku félaganna sem fram fór í Stavanger. Ólafur Örn Bjarnason og Kristján Örn Sigurðsson léku báðir með Brann.
*INDRIÐI Sigurðsson lék allan leikinn með Genk í gær þegar lið hans tapaði, 1:0, fyrir Moeskroen í belgísku 1. deildinni í knattspyrnu. Genk hefur aðeins náð einu stigi í sex leikjum á útivelli eftir áramótin. Litlu munaði að Indriði næði að forða sigurmarki Moeskroen, sem Dorothée skoraði með hjólhestaspyrnu.